20.1.2012

Föstudagur 20. 01.12

Almennt segi ég ekki frá jarðarförum hér á síðunni. Ég geri undantekningu í dag. Klukkan 15.00 fór ég í jarðarför Jóhannesar Ó. Halldórssonar í Fossvogskapellu. Athöfnin var látlaus og virðuleg í anda hins látna sem ég kynntist fyrir 40 árum þegar ég vann á Almenna bókafélaginu og hann sinnti lestri prófarka fyrir félagið fyrir utan að vera höfundum einstakur leiðbeinandi ef svo bar undir. Þá þekkti ég hann einnig vegna starfa hans á alþingi þar sem hann meðal annars annaðist frágang og útgáfu þingtíðinda. Séra Hjálmar Jónsson jarðsöng og hitti naglann á höfuðið þegar hann vakti máls á því að í návist Jóhannesar gætti maður þess að sýna meiri virðingu og kurteisi en í návist fólks almennt. Það var líka rétt hjá séra Hjálmari að vekja athygli okkar á því að Jóhannes hefði ekki fellt sig við að prentvilla væri á forsíðu útfararskrárinnar þar sem stóð O í stað Ó fyrir millinafn hans.

Greidd voru atkvæði í kvöld á alþingi um hvort visa ætti tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á ákæru á hendur Geir H. Haarde frá. Tillagan var felld með 31 atkvæði gegn 29. Þetta þýðir að tillaga Bjarna verður skoðuð í þingnefnd. Að lokinni atkvæðagreiðslunni ræddi tíðindamaður Smugunnar, vefrits VG, við Jóhönnu Sigurðardóttur:

„Spurð um eigin mat á áhrifin á stjórnarsamstarfið sagði Jóhanna: „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég vona ekki. Það eru mörg verk sem eru óunnin hér sem þarf að klára, þannig að ég vona ekki.“

Jóhanna segist hafa vonast til þess að niðurstaða Alþingis yrði önnur. „Ég taldi að málið væri úr höndum Alþingis og ætti að fá sína lúkningu fyrir dómstólum. En nú er málið áfram í ferli þingsins og við það situr.““

Þessi orð forsætisráðherra einkennast ekki af miklu öryggi um framtíð stjórnarsamstarfsins. Tveir ráðherrar af átta í ríkisstjórninni og forseti alþingis greiddu atkvæði gegn skoðun forsætisráðherrans í þessu máli. Jóhanna hefur hins vegar enga burði til að beita þessa ráðamenn í stjórnarsamstarfinu pólitískum aga.

Það er ekki að ástæðulausu að mikill titringur hefur verið vegna  málsins í þinginu. Samfylking, vinstri-græn og Framsóknarflokkur klofna í málinu. Hvorki Jóhanna né Steingrímur J. Sigfússon hafa stjórn á þingflokkum sínum, klofningur magnast innan þingflokks vinstri-grænna og Björn Valur Gíslason þingflokksformaður sem spáði samþykkt frávísunartillögunnar reynist marklaus enda ræður hann yfir litlu öðru en stórum orðum.