1.1.2012

Sunnudagur 01. 01. 12

Gleðilegt nýár!

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs í sumar. Af því tilefni ritaði ég pistil á Evrópuvaktina.

Í pistlinum vitna ég meðal annars í nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar biskups sem einnig kveður embætti sitt á þessu ári. Biskup minnti á ósvífni ýmissa sem láta skoðanir sínar í ljós í netheimum. Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður vinstri-grænna, er í hópi hinna hatrömmustu eins og sannaðist strax eftir hann sagði álit sitt á ræðu biskupsins.

Björn Valur sýndi forseta Íslands óvirðingu við setningu alþingis og nú í upphafi árs ræðst hann með svívirðingum á biskup Íslands. Björn Valur er málpípa þess manns sem telur sig mestan valdamann á hinu nýja Íslandi Steingríms J. Sigfússonar. Síðast níddust þeir saman að samflokksmanni sínum Jóni Bjarnasyni til að færa Steingrími J. aukin völd. Þeim datt ekki í hug að taka upp hanskann fyrir Jón þegar hann sætti árás af hálfu Jóhönnu Sigurðardóttur. Björn Valur bætti í betur til að auka á niðurlægingu Jóns.