27.1.2012

Föstudagur 27. 01. 12

Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina í tilefni af því að Jóhann Hauksson er orðinn upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að berjast gegn frjálshyggjunni og koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda. Aldrei hefur upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar gengið til starfa með skýr flokkspólitísk markmið enda starfar Jóhann ekki lengur í forsætisráðuneytinu en Jóhanna situr þar. Margt bendir til þess að Jóhann sé einmitt ráðinn í því skyni að búa í haginn fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum sem þeir sem standa í kringum Jóhönnu og ráða ferð hennar á síðustu metrum hennar í stjórnmálum telja að geti orðið hvenær sem er á næstunni.

Hallgrímur Helgason rithöfundur skellir sér í pólitísku laugina í DV  í dag með grein til að dylgja um Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokkinn. Hallgrímur fer líklega í sama gírinn og á tíma Baugsmálsins þegar hann vann að framgangi mála í þágu Baugs og Samfylkingarinnar og barði á formanni Sjálfstæðisflokksins.

Þegar ég skrifaði pistil minn hafði Illugi Jökulsson hampað grein Hallgríms. Með þekkingu mína á gangi áróðurs á tíma Baugsmálsins íhugaði ég að spá því að Egill Helgason, umræðustjórnandi RÚV, mundi einnig benda lesendum vefsíðu sinnar á grein Hallgríms. Ég gerð það ekki, hins vegar kom ábendingin á síðu Egils eins og við mátti búast. Ferillinn innan þessa skjallbandalags andstæðinga Sjálfstæðisflokksins er öllum ljós sem fylgjast með stjórnmálum og fjölmiðlun.