4.1.2012

Miðvikudagur 04. 01. 12

Að öllu óbreyttu verður ekki kosið til þings fyrr en í apríl 2013. Engu að síður segir RÚV tíðindi af væntanlegum framboðum, þau verði allt að níu ef marka má fréttir í kvöld. Fátt nýtt kom þó fram í fréttunum því að „usual suspects“ voru kynntir til sögunnar. Satt að segja bar fréttin helst þess merki að draga ætti athygli frá miklu stærri pólitískum álitaefnum á líðandi stundu, það er bullandi ágreiningi innan stjórnarflokkanna. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið afskrifuð innan Samfylkingarinnar og situr sem forsætisráðherra af því að þingflokkurinn þorir ekki í kosningar. Steingrímur J. Sigfússon talar ekki lengur um ríkisfjármál í fréttatímum heldur hvort rétt efni séu í áburði.

Gera má fréttir af nýjum framboðum bitastæðar með því að lýsa aðstandendum þeirra því að almennt eru þeir ekki fæddir í gær heldur hafa látið að sér kveða á ýmsan hátt meðal annar með pólitískri þátttöku. Það á til dæmis við um Sigurjón Þórðarson, leiðtoga Frjálslynda flokksins. Hann sat á þingi og tók oft til máls. Í bók minni Rosabaugi yfir Íslandi vitna ég í nokkrar þeirra. Sigurjón var í hópi þeirra þingmanna sem tók málstað Baugsmanna gegn ákæruvaldi og lögreglu af hvað mestri ákefð. Nú ræðir hann um samstarf við Borgarahreyfinguna. Er hún ekki stjórnmálaafl gegn spillingu í viðskiptalífinu?