12.1.2012

Fimmtudagur 12. 01. 12

Í kvöld gafst mér færi á að sjá í Laugarásbíói forsýningu á The Iron Lady kvikmyndinni um Margaret Thatcher sem Meryl Streep leikur á þann hátt að hún hlýtur að fá Óskars-verðlaunin.

Myndin er í flokki með myndunum The Queen og The King's Speech sem slegið hafa í gegn og hlotið fjölda verðlauna. Það kemur vel fram í myndinni hve miklum þáttaskilum Thatcher olli innan Íhaldsflokksins, í Bretlandi og raunar heiminum öllum. Í sögunni er áréttað hvílík bylting varð með því að kona komst til æðstu metorða og rauf klúbb- og málamiðlunarandrúm karlanna sem skapaði Bretum sífellt meiri vandræði. Fyrir rúmum 22 árum sá Thatcher einnig hve óskynsamlegt væri fyrir Breta að tengjast evrópska myntbandalaginu.

Atriðin um hina öldruðu Thatcher sem lifir í eigin heimi eiga fullan rétt á sér en taka of mikinn tíma frá öðru efni og hve Meryl Streep tekst einstaklega vel að sýna hina einörðu og hugsjónaríku Thatcher.

Frakkar hafa gert heimildarmynd um hina ótrúlega atburðarás þegar þingmenn Íhaldsflokksins ákváðu að ýta Thtacher til hliðar. Þar gegndi Sir Geoffrey Howe lykilhlutverki en hann sagði af sér sem ráðherra þegar honum þótti Thatcher sýna sér óbærilegt ofríki. Flutti hann sögulega afsagnarræðu í neðri deild breska þingsins sem varð kveikjan að ferli sem um eina helgi leiddi til falls Thatcher en hún tók þá þátt í hátíðarhöldum í París til að fagna lyktum kalda stríðsins.

Boris Johnson, borgarstjóri í London, sem hefur skrifað lofsamlega umsögn um myndina segir að í henni sé Thatcher sýnd of grimm við Howe, hún hafi ekki lítillækkað hann á þann veg sem sýnt sé í myndinni. Hann nefnir einnig fleiri atvik úr myndinni þar sem höfundur handritsins tekur sér skáldaleyfi án þess að hnikað sé við staðreyndum.

Thatcher vekur enn sterkar tilfinningar og nú er deilt opinberlega um  hvort útför hennar eigi að verða State Funeral eða á lægri nótum. Deilur um það í blöðum eru dapurlegri en hvort við hæfi sé að sýna hana sem gamla konu með heilabilun í myndinni.