7.1.2012

Laugardagur 07. 01. 12

Jón Baldur Lorange sem ræddi við mig á Útvarpi Sögu fimmtudaginn 5. janúar hefur sett inn útdrátt úr hluta viðtalsins inn á vefsíðu sína eins og sjá má hér.

Páll Óskar Hjálmtýsson segir í samtali við Stöð 2 í kvöld að NASA eða salur gamla Sjálfstæðishússins í Reykjavík verði ekki rifinn án þess að hann fórni sér með honum. Hann hafi haldið að listafólk stæði að Besta flokknum sem nú stjórnar í Reykjavík með stuðningi Samfylkingarinnar. Talsmenn þess að salurinn verði varðveittur sem „félagsheimili“ Reykvíkinga hafi rætt við forráðamenn borgarinnar en talað fyrir daufum eyrum.

Eftir deilurnar um framtíð þessa salar er einkennilegt að enn skuli ekki hafa fundist friðsamleg lausn um hana. Það minnir orðið á einskonar þráhyggju að vilja rífa hann. Hvað veldur henni?

Þegar ég bauð mig fram til borgarstjórnar árið 2002, fyrir 10 árum, voru helstu deilumálin framtíð Reykjavíkurflugvallar og Sundabraut fyrir utan varnaðarorð okkar sjálfstæðismanna um skuldasöfnun borgarinnar og Orkuveitu Reykjavíkur. Enginn talar lengur um flugvöllinn eða Sundabraut eins og vænta mátti strax fyrir 10 árum og Reykvíkingar og fleiri súpa seyðið af skuldasöfnuninni. Ég man eftir ramakveininu sem upp var rekið þegar ég líkti fjármálastjórninni við Enron-hneykslið. Skyldi það hafa verið svo fjarri sanni?