30.1.2012

Mánudagur 30. 01. 12


Í dag skrifaði ég pistil á Evrópuvaktina vegna þess hve ESB-aðildarsinnar kveinka sér mikið undan því sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði um ferðir til Brussel á þingi 24. janúar. Pistilinn má lesa hér.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein í Morgunblaðið í dag vegna fyrirspurna sem hann fékk frá hæstaréttarlögmann í Morgunblaðsgrein laugardaginn 28. janúar en þær snerust um lánasviptingar tengdar  Glitni og Vafningi. Þennan sama laugardag skrifaði Hallgrímur Helgason rithöfundur grein um Bjarna og þessar sömu fjármálasviptingar í DV.

Bjarni hefur oft svarað fyrir sig vegna þessa áburðar áður en augljóst er að andstæðingar hans og Sjálfstæðisflokksins trúa ekki orðum hans eða telja sér henta að gera það ekki.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hallgrímur Helgason fer inn í eigin blekkingarheim þegar sjálfstæðismenn eiga í hlut. Eftir bankahrunið skrifaði hann sig frá stuðningi við Baugsmenn á uppgangs- og útrásartíma þeirra og leitaðist við að játa villu síns vegar varðandi Baugsmiðlanna og Baugsmálið. Hið sama má segja um skjallbandalagsbræður hans Illuga Jökulsson og Egil Helgason sem báðir hömpuðu grein Hallgríms í DV.

Í viðtali við Smuguna, málgagn VG, segist Hallgrímur hafa skrifað greinina í DV eftir að meirihluti þingmanna ákvað að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar um landsdómsmálið ekki frá heldur taka hana til efnislegrar umræðu. Rithöfundurinn kaus sem sagt frekar ritskoðun  á alþingi en efnislegar umræður og tók sér fyrir hendur að lesa ákæruskjal frá sérstökum saksóknara með allt öðrum gleraugum en hann las slík skjöl á tíma Baugsmálsins þegar hann átti varla nógu neyðarleg orð til að lýsa skömm sinni á ríkislögreglustjóra og mönnum hans fyrir ákæruna á hendur Baugsmönnum.

Framganga Hallgríms Helgasonar er aðeins vísir að því sem koma skal úr herbúðum hans og manna hans þegar nær dregur kosningum.  Með Jóhann Hauksson í stjórnarráðinu en ekki í laumuspili með Baugsmönnum á hinum ýmsu fjölmiðlum. Má sjá að gamla fótgönguliði Baugsmanna er stillt upp til nýrrar orrustu.