24.1.2012

Þriðjudagur 24. 01. 12

Í dag ræddu þingmenn umdeilt mál vegna ESB-aðildarumsóknarinnar, IPA-styrkina. Þeir eru veittir til að kosta aðlögun að ESB. Ríkisstjórnin hefur heitið því að ekki komi til neinnar aðlögunar nema já verði sagt í þjóðaratkvæðagreiðslu um skjal sem liggi fyrir að loknum viðræðum. Ég skrifaði um málið á Evrópuvaktina í morgun eins og lesa má hér.

Því miður hafa fréttir af umræðunum verið svo óljósar í dag að ógjörningur er að átta sig á því hvað fram kom. Áhugi fréttastofu RÚV á málinu í fréttum klukkan 18.00 var of takmarkaður til að þar yrði nokkru ljósi brugðið á málflutninginn. Í fréttatímanum var hins vegar lesið úr smáauglýsingum í Bændablaðinu. Var það skrýtið fréttamat svo að ekki sé meira sagt.

„Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir styrkjum upp á 596 milljónir króna frá Evrópusambandinu fyrir afmörkuð verkefni. Gerð er krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja en verkefni vegna styrkjanna eru boðin út á EES-svæðinu. Alþingi þarf hins vegar að samþykkja þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um rammasamning milli ríkisstjórnarinnar og framkvæmdastjórnar ESB ef afgreiða á styrkina.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, spurði utanríkisráðherra í dag hvað yrði um þá styrki sem gert er ráð fyrir í fjárlögum ef svo færi að þingið felldi tillögu vegna þeirra.

„Ef þessi rammasamningur yrði felldur, við héldum að sjálfsögðu áfram með umsóknina, þá þyrfti að leggja til fé til að standa straum af ákveðnum breytingum eins og háttvirtur þingmaður veit. Við undirbúning nýrrar tollskrár, hugsanlega skattkerfishugbúnaði. Þá er það rétt hjá háttvirtum þingmanni að það myndi lenda á íslenskum skattgreiðendum," sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi. thorbjorn@stod2.is