23.1.2015 19:30

Föstudagur 23. 01. 15

Í dag eru liðin rétt 20 ár frá því að fyrsta færslan sem varðveitt er hér á vefsíðunni var sett á hana, það var hinn 23. janúar 1995 eins og sjá má hér. Í þessi 20 ár hefur síðan verið snar þáttur í daglegu lífi mínu. Hún geymir gífurlegt magn upplýsinga um það sem á daga mína hefur drifið í einkalífi og opinberu lífi. Þá er hér að finna viðhorf mitt til manna og málefna á líðandi stundu.

Þetta er þó aðeins brot af því sem ég hef skrifað á þessum árum. Í tæp fimm ár höfum við Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, haldið úti vefsíðunni Evrópuvaktinni og þar hef ég skrifað mikið um málefni líðandi stundar. Þá hef ég í 10 ár verið fastur dálkahöfundur hjá tímaritinu Þjóðmálum en enga af þeim greinum sem ég hef skrifað þar um stjórnmál eða bækur er að finna hér á síðunni.

Ég hef rætt við Borgarskjalasafnið um varðveislu síðunnar þegar fram líða stundir. Hún hefur frá síðla árs 2002 verið vistuð hjá Hugsmiðjunni sem hannaði hana í núverandi búning í tengslum við prófkjör vegna alþingiskosninganna vorið 2003. Samstarfið við Hugsmiðjuna hefur verið farsælt og snurðulaust í allan þann tíma sem síðan er liðinn. Ég átti einnig mikið undir öðrum kunnáttumönnum við gerð og varðveislu vefsíðu fyrir þann tíma og er sú saga rakinn hér á síðunni til dæmis hér, 

Miðvikudaginn 21. janúar kom fjöldi manna saman í Valhöll til að minnast þess að á gamlársdag voru liðin 50 ár frá andláti Ólafs Thors, hins mikla foringja flokksins. Hér má sjá myndband frá fundinum þar sem Davíð Oddsson, fyrrv. flokksformaður, flutti skemmtilega ræðu en Bjarni Benediktsson flokksformaður stjórnaði fundinum og minntist einnig forvera síns.

Ég var 20 ára þegar Ólafur Thors lést og kynntist nánu samstarfi og vináttu hans og föður míns. Er birta og gleði yfir þeirri minningu. Nú má kynnast skjölum þeirra beggja á Borgarskjalasafni og er ekki að efa að þegar fram líða stundir munu menn átta sig æ  betur á hve margar örlagaríkustu ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna má rekja til samstarfs þeirra og baráttukjarks.