24.1.2015 19:15

Laugardagur 24. 01. 15

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna um álit umboðsmanns alþingis (UA) á samtölum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Stefáns Eiríkssonar, innanríkisráðherrans og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.  Hugleiðingu mína má lesa hér. UA seilist næsta langt til að komast að lögfræðilegri niðurstöðu um álitaefnið og auðveldaði Hanna Birna honum það með því að viðurkenna mistök í bréfi til hans.

Einkennilegt er ef Hönnu Birnu er nú talið það til lasts að hafa játað á sig mistök. Þetta er efnislega hið sama og hún sagði í bréfi til sjálfstæðismanna 8. janúar 2015, sama dag og hún sendi UA bréfið. Við sjálfstæðismenn sagði Hanna Birna:

„Ég vildi óska að ég hefði fyrr en ég gerði áttað mig á því hversu erfitt málið yrði; vildi óska að ég hefði gert minna af því að útskýra atburðarás og grípa til varna í máli sem ég gat ekki útskýrt; og vildi óska að ég hefði aldrei rætt málið eða átt nokkur samskipti við fyrrverandi lögreglustjóra vegna þess, þrátt fyrir skýringar hans um að hann færi ekki með stjórn málsins. Því hef ég þegar komið til umboðsmanns Alþingis með bréfi í dag.“

Í tíð minni sem ráðherra las ég mörg álit UA meðal annars um málefni sem varðaði embættisfærslu mína. Ég latti fólk aldrei til að leita álits UA enda er verkefni hans að lýsa inn í skúmaskot stjórnsýslunnar og benda á það sem má betur fara. Þetta tilvik sem hér um ræðir er svo sérstakt að vonandi á aldrei eftir að koma til þess aftur að ríkissaksóknari sjái ástæðu til að gefa fyrirmæli um rannsókn á ráðuneyti lögreglumála.

Ég var ekki alltaf sammála niðurstöðu UA. Hann gekk til dæmis lengra en góðu hófi gegndi þegar hann bjó til nýja reglu í áliti sínu vegna skipunar Ólafs Barkar Þorvaldssonar í embætti hæstaréttardómara og taldi mig hafa brotið hana! Þegar Ólafur Börkur sótti um dómaraembætti tóku þeir sem sátu fyrir í hæstarétti sig saman um reyna að binda hendur veitingarvaldsins með forgangsröðun í áliti sínu.

Vegna álits UA í því máli kröfðust margir afsagnar minnar sem ráðherra.