15.1.2015 20:30

Fimmtudagur 15. 01. 15

Að þeir sem vilja að Ísland gangi í ESB haldi fast í sjónarmið sitt um að ekki megi afturkalla aðildarumsóknina frá 2009 nema greitt sé þjóðaratkvæði um afturköllunina verður talið meðal einkennilegustu afstöðu til mikilvægs utanríkismáls þegar fram líða stundir.

Aðildarumsóknin var reist á þeim misskilningi að árið 2009 yrði tekið á móti Íslandi í Brussel eins og á móti EFTA-ríkjum árið 1992. Með vísan til þess töldu stuðningsmenn umsóknarinnar að aðildarviðræður tækju aðeins fáeina mánuði. Sá sem kvað fastast að orði um það efni var frambjóðandi Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2009 og prófessor í Evrópumálum við Háskóla Íslands. Ráðgjöf hans reyndist reist á sandi.

ESB batt enda á viðræðurnar í mars 2011 þegar fulltrúar sambandsins neituðu að afhenda skýrslu um sjávarútvegsmál nema Íslendingar féllu frá kröfum í sjávarútvegsmálum. Ríkisstjórn Íslands ákvað að bíða fram í desember 2012 í von um að ESB félli frá þessu skilyrði sínu. Biðin reyndist árangurslaus og í janúar 2013 sló utanríkisráðherrann sem sótti um aðild viðræðunum á frest.

ESB-flokkarnir töpuðu þingkosningunum 2013. Ný ríkisstjórn afmunstraði viðræðunefnd Íslands. Snemma árs 2014 fékk ríkisstjórnin skýrslu í hendur frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem hörmungarsaga viðræðnanna er rakin.

Hinn 1. nóvember 2014 settist ný framkvæmdastjórn ESB að völdum. Forseti hennar afnam stöðu stækkunarstjóra en lagði áherslu á að rætt yrði við ríkisstjórnir Balkanríkja í von um að fyrirheit um hugsanlega aðild festi lýðræði í sessi. Hann sagði að engu ríki yrði hleypt inn í ESB fyrr en í fyrsta lagi eftir 2019.

Utanríkisráðherra segir að hann ætli að kynna alþingi tillögu sem leiði til þess að Ísland sé ekki ESB-umsóknarríki.

Að haft sé í heitingum við ríkisstjórnina þegar hún leggur drög að ákvörðun um svo sjálfsagðan hlut er sérkennilega ómálefnalegt. Ástæðan fyrir að umsóknarsinnar ræða um þjóðaratkvæðagreiðslu en ekki efni málsins er einföld: þeir vita að málefnastaða þeirra í þágu aðildarviðræðna er orðin að engu.