20.1.2015 21:15

Þriðjudagur 20. 01. 15

Það er sérkennilegt að stjórnendur ríkisútvarpsins skuli ekki átta sig á hve hættulegt er fyrir áhorf á 19.00 fréttir sjónvarps og Kastljósið að hringla með tímasetningar þessara dagskráratriða. Festa í sýningartíma er lykilatriði til að halda í áhorfendur. Sé þess ekki gætt fjarar undan því sem látið er víkja fyrir öðru efni eins og handbolta um þessar mundir.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrv. hæstaréttardómari, skrifar grein í Morgunblaðið í dag og varar við áformum um að skilja embætti sérstaks saksóknara eftir í svo mikilli fjárþröng að hann geti ekki lokið málum sem sæta þar rannsókn. Áður hafði Morgunblaðið haft uppi sömu varnaðarorð í leiðara sínum.

Það yrði meirihluta alþingis og stjórnarmeirihlutanum sérstaklega til mikils álitshnekkis ef sérstökum saksóknara yrði gert ókleift að ljúka verkefnum sínum á sómasamlegan hátt. Menn kunna að hafa ólíkar skoðanir á nauðsyn þess að stofna embættið á sínum tíma, um það var hins vegar víðtæk samstaða á alþingi haustið 2008. Þá er ekki óeðlilegt að ýmsir séu sárir eftir að embættið hefur starfað í sex ár og glímt við mál án nokkurs fordæmis og án þess að feta troðnar slóðir.

Hér á síðunni hef ég oft minnt á rökin fyrir tillögu minni um að stofna embætti sérstaks saksóknara. Var unnið að skipulagi þess þegar ég lét af embætti dómsmálaráðherra 1. febrúar 2009. Að embættinu verði ekki gert kleift að ljúka því sem fyrir það er lagt í lögum er í hróplegri andstöðu við tilganginn með stofnun þess.

Að skilja við rannsókn á sakarefnum vegna bankahrunsins án þess að öllum steinum verði velt er í andstöðu við vilja alþingis haustið 2008. Alþingismenn sem vilja svipta embætti sérstaks saksóknara nauðsynlegum fjárveitingum verða að gera grein fyrir ástæðum þess. Geri þeir það ekki nú taka spurningarnar á sig nýjan svip þegar fram líða stundir, engum til góðs.