3.1.2015 19:40

Laugardagur 03. 01. 15

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG (vinstri-grænna), sagði á vefsíðu sinni á nýársdag: „Framsóknarflokkurinn hefur yfirtekið DV. Svo einfalt er það.“

Varaformaður VG kemst að þessari niðurstöðu af því að nýir eigendur DV hafa ráðið Kolbrúnu Bergþórsdóttur, blaðamann á Morgunblaðinu, og Eggert Skúlason, almannatengil, blaða- og fréttamann, sem ritstjóra blaðsins. Hörður Ægisson hefur verið ráðinn viðskiptaritstjóri DV. Hann kemur af Morgunblaðinu.

Að kvöldi nýársdags sagði í frétt á dv.is:

 „Ein­ar Kára­son, ein­hver dáðasti og virt­asti rit­höf­und­ur okk­ar Íslend­inga, er geng­inn til liðs við DV. Mun hann sjá um fast­an dálk á einni opnu í helgar­blaði DV á nýju ári og hef­ur frjáls efnis­tök.“

Þeir sem fylgst hafa með stjórnmálaskrifum Einars Kárasonar rithöfundar vita að hann hefur jafnan rétt Samfylkingunni hjálparhönd á ögurstundu þá stóð hann með Baugsmönnum á tíma Baugsmálsins.

Valur Grettisson hefur verið ráðinn blaðamaður á DV. Hann starfaði á 365 miðlum en vék þaðan í einni af sparnaðarrispunni. Fyrir sveitarstjórnarkosningarinnar vorið 2014 stjórnaði Valur kosningabaráttu Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.

Jóhann Hauksson, fyrrv. upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, er fréttastjóri. Hann sinnti ýmsum fjölmiðlaverkefnum fyrir Baugsmenn á tíma Baugsmálsins, var þá ekki allt sem sýndist.

Ingi Freyr Vilhjálmsson er ritstjórnarfulltrúi. Hann sendi í fyrra frá sér bók og rekur allar seinni tíma hörmungar Íslendinga til þess að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn mynduðu ríkisstjórn á árinu 1995  

Líklegri en kenning varaformanns VG um að DV muni þjóna Framsóknarflokknum er hin um að nú hafi verið stigið skref til að sameina miðla og brjóta upp fyrirtækið 365 miðla. Til verði fjarskiptafyrirtæki annars vegar og fjölmiðlafyrirtæki hins vegar: að DV, Fréttablaðið,vefsíðurnar Pressan/Eyjan og visir.is auk ljósvakamiðla 365 miðla renni saman í eitt fyrirtæki. Sameining ritstjórna og samhliða hagræðing er ekki fjarlægur ásetningur þeirra sem stjórna breytingum á DV á bakvið tjöldin.

Björn Valur Gíslason kveikir villuljós með tali sínu um framsóknarhollustu hins nýja DV. Hann þarf örugglega ekki að hafa pólitískar áhyggjur. Sá sem ætti að gæta sín er Sigurjón Magnús Egilsson, ritstjóri Fréttablaðsins. Þeir sem ráða ferðinni við smíði hins nýja fjölmiðlaveldis hafa áður haft hann sem peð í fjölmiðla-leikfléttu.