Laugardagur 17. 01. 15
Fyrir nokkrum vikum birtist grein í einu sérkennilegasta blaði sem gefið er út í landinu Reykjavík vikublaði eftir rannsóknarblaðamanninn Atla Þór Fanndal þar sem upplýst var að í bandarískum skjölum frá 1974 kæmi fram að við Styrmir Gunnarsson hefðum ekið með Fred Irving, þáverandi sendiherra Bandaríkjanna, til Keflavíkurflugvallar og rætt við hann um úrslit þingkosninganna sem fram fóru í júlí 1974 og pólitískar hræringar í kjölfar þeirra. Við Styrmir störfuðum þá báðir sem blaðamenn, hann á Morgunblaðinu og ég á Vísi.
Í kosningunum 1974 urðu þáttaskil í utanríkismálum, þá féll vinstri stjórnin sem hafði á stefnskrá sinni að reka Bandaríkjamenn úr Keflavíkurstöðinni. Sjálfstæðisflokkurinn vann einn sinn besta kosningasigur og stjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna undir forsæti Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sneri strax við blaðinu í varnarmálum í október 1974 með samkomulagi um þau mál við Bandaríkjastjórn.
Var þá betur staðið að framkvæmd stefnubreytingar í utanríkismálum að kosningum loknum en nú þegar stjórnarflokkarnir aftengja ekki hina ömurlegu ESB-umsókn sem knúin var í gegn á alþingi sumarið 2009 með blekkingum og hótunum eins og sjá má hér.
Ætlan rannsóknarblaðamannsins Atla Þórs var að sverta okkur Styrmi í huga lesenda sinna og bregða upp mynd af okkur sem einhverjum uppljóstrurum ef ekki njósnurum vegna samstals okkar við sendiherrann í þessari ökuferð. Ímyndunarafl rannsóknarblaðamannsins eða óvildarhugur ræður ferð og afvegaleiðir hann.
Í Morgunblaðinu í dag birtir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor vikulega fróðleiksmola úr sögu og samtíð og segir að í Wikileaks-skjölunum megi lesa að bandaríska sendiráðið í Reykjavík hafi árið 2007 valið Jón Guðna Kristjánsson, fréttamann ríkisútvarpsins, til að fara í „fræðsluferð um Afganistan“ til Washington og Brussel „Jón Guðni væri virtur fréttamaður, og Spegillinn, sem hann hefði umsjón með, væri einn áhrifamesti fréttaþáttur landsins,“ segir í pistli Hannesar Hólmsteins. Í skjölunum vitna sendiráðsmenn í ýmis sjónarmið Jóns Guðna sem Hannes segir að saki sendiráðið um „uppspuna“ þegar þetta beri á góma. Hannes spyr: „Hver hefur rétt fyrir sér?“ og segir síðan í lokin: „En fróðlegast kann þó að vera, að bandaríska sendiráðið skyldi hafa slíkt dálæti á umsjónarmanni Spegilsins, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann.“
Hvaða samsæri skyldi Atli Þór Fanndal sjá í tengslum umsjónarmanns Spegilsins og bandaríska sendiráðsins?