18.1.2015 16:00

Sunnudagur 18. 01. 14

Miðvikudaginn 14. janúar ræddi ég við Jón G. Friðjónsson prófessor í þætti mínum á ÍNN í tilefni af útgáfu hinnar miklu bókar hans með málsháttum og orðskviðum Orð að sönnu. Sjá má þáttinn hér. 

Í gær var óperettan Káta ekkjan  í uppfærslu Metropolitan-óperunnar sýnd beint frá New York í Kringlubíói í Reykjavík. Í kynningu kom fram að um 16.000 manns sáu þessa sýningu í kvikmyndahúsum í fjölmörgum löndum víða um heim. 

Vinsældir þessara útsendinga frá Metropolitan aukast jafnt og þétt enda er einstaklega vel að verki staðið. Upptaka frá sýningunni á laugardag verður endursýnd í Kringlubíói klukkan 18.00 á miðvikudag.

Meðal þeirra flytjenda sem sáust í nærmynd var flautuleikarinn Stefán Ragnar Höskuldsson, hér má sjá viðtal við hann í Landanum í sjónvarpinu frá því í október 2013.

Stefán Ragnar var ráðinn fyrsti flautuleikari Metropolitan-óperunnar árið 2008 en þá hafði hann verið annar flautuleikari þar í fjögur ár. Hefur þetta verið sagt „eftirsóttasta flautuleikarastarf í heimi“.

Stefán Ragnar var valinn úr hópi um 100 manns sem léku prufuspil til að fá starfið. Umsækjendur voru miklu fleiri. Að fá fastráðningu er eins og að vinna ólympíugull, sagði Stefán Ragnar í samtali við Morgunblaðið hinn 8. desember 2008.

Stefán Ragnar er ættaður frá Neskaupstað. Hann nam flautuleik hjá Bernharði Wilkinson i Reykjavík. Var í frásögur fært að Höskuldur faðir Stefáns Ragnars ók honum að austan í spilatíma til Reykjavíkur.