Mánudagur 12. 01. 15
Tónninn í málflutningi franskra stjórnmálamanna og blaða vegna hryðjuverkanna í síðustu viku hefur breyst eftir hinar fjölmennu samstöðugöngu í París og Frakklandi öllu um helgina. Eins og sjá má hér fer ekki á milli mála að helstu áhrifamenn á sviði stjórnmála og álitsgjafar í fjölmiðlum telja um stríð við hryðjuverkamenn að ræða. Spurningin sé hve mikla hörku ríkisvaldið eigi að sýna og hve miklar heimildir eigi að veita yfirvöldum til að hafa eftirlit með einstaklingum – hvort ganga eigi eins langt og Bandaríkjamenn gerðu fáeinum vikum eftir 11. september 2001 þegar lögin sem nefnd eru Patriotic Act voru samþykkt.
Of snemmt er að segja hver verður niðurstaða hinna pólitísku umræðna í Frakklandi, hitt er ljóst að þar gildir hæsta öryggisstig áfram og á morgun verða 10.000 hermenn sendir úr búðum sínum til að gæta öryggis borgaranna, ekki síst gyðinga. Þeir hafa um nokkurt skeið óttast um öryggi sitt í Frakklandi og ekki minnkar óttinn við að fjórir gíslar voru myrtir með köldu blóði af hryðjuverkamanni í gyðingaverslun í París föstudaginn 9. janúar.
Frakkar eru stoltir af að á 48 stundum tókst að undirbúa komu tæplega 50 ríkisoddvita til landsins til að taka þátt í göngunni miklu. Talað er um að á þessum skamma tíma hafi við hinar erfiðustu aðstæður verið undirbúinn tvöfaldur G-20 leiðtogafundur eins og það er orðað. Þegar á hólminn var komið hafi síðan allt gengið eins og í sögu.
François Hollande Frakklandsforseti er af stuðningsmönnum sínum og öðrum talinn stjarna dagsins, athygli hafi beinst að hverri hreyfingu hans og hann komið, séð og sigrað án þess að segja eitt orð opinberlega allan daginn. Þetta er vissulega vel af sér vikið og verður örugglega til þess að auka virðingu Frakka fyrir forseta sínum enda gat hann ekki sigið lægra í skoðanakönnunum.
Við Íslendingar þekkjum það úr forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar að einn sögulegur atburður sem vekur þjóðarathygli og aðdáun getur gert gæfumuninn fyrir þjóðkjörinn forseta sem tapað hefur áliti og glutrað niður fylgi sínu.