26.1.2015 20:25

Mánudagur 26. 01. 15

Á ruv,is segir í dag:

„Alexis Tsipras, [leiðtogi róttækra grískra vinstrimanna] tók formlega við embætti forsætisráðherra nú síðdegis, eftir stórsigur vinstriflokksins Syriza í grísku þingkosningum í gær. „Það eru bjartir tímar framundan, tímar vonar,“ sagði hann þegar forsetinn, Karolos Papoulias, sór hann í embætti.

Tsipras er yngsti maðurinn til að gegna embætti forsætisráðherra í Grikklandi í eina og hálfa öld. Tsipras fór fram á að athöfnin yrði borgaraleg. Hann sór embættiseið sinn því ekki við biblíuna eins og hingað til hefur tíðkast og þáði ekki blessun kardinála.“

Í Biblíunni segir:

Hebreabréfið 6:16-19

„Menn sverja eið við þann sem æðri er, eiðurinn er þeim staðfesting og bindur enda á öll andmæli. Með því nú að Guð vildi sýna þeim sem fyrirheitið var ætlað enn skýrar hve ráð sitt væri óraskanlegt, þá ábyrgðist hann heit sitt með eiði. Það er óhugsandi að Guð fari með lygi og því er þetta tvennt sem er óraskanlegt mikil uppörvun fyrir okkur sem höfum leitað athvarfs í þeirri sælu von sem við eigum. Þessi von er eins og akkeri fyrir sálina, traust og öruggt, og nær alla leið inn fyrir fortjaldið“

 

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:

„Þess má geta að hugtakið „drengskaparheit“ hefur ákveðna þýðingu í réttarfari þar sem það er notað yfir sérstaka staðfestingu vitnis á framburði þess fyrir dómi. Sú staðfesting er fólgin í því að vitnið leggur við drengskap sinn að hafa sagt satt og rétt frá fyrir dóminum. Drengskaparheit hefur í þessu sambandi sömu þýðingu og eiður að lögum. Eiður er notaður ef vitnið lýsir því yfir að það trúi á guð en annars drengskaparheit.“

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir:

„Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni.“

Hefði fréttastofa ríkisútvarpsins ekki átt að segja að Alexis Tsipras hefði unnið drengskaparheit að grísku stjórnarskránni? Og forseti Grikklands hefði sett hann í embætti?