29.1.2015 18:00

Fimmtudagur 29. 01. 15

Viðtal mitt á ÍNN við Magnús Lyngdal Magnússon, skrifstofustjóra Miðstöðvar framhaldsnáms í Háskóla Íslands, frá 21. janúar er komið á netið og má sjá það hér.

Nú eru tvö ár liðin frá því að Össur Skarphéðinsson, þáv. utanríkisráðherra, sló viðræðunum við ESB á frest án þess að bera málið undir alþingi. Hann lét nægja hinn 14. janúar 2013 að ræða málið í ráðherranefnd um Evrópumál og leggja fram minnisblað í ríkisstjórn sem síðan sendi frá sér fréttatilkynningu sem lesa má hér. 

Þessi leikur í glímu Össurar við ESB og andstöðu við ESB-aðild meðal Íslendinga dugði ekki til að tryggja ESB-flokkunum stuðning í þingkosningunum í apríl 2013. Þeir hlutu illa útreið og við tók stjórn flokka sem vilja ekki inn í ESB. Fyrir ríkisstjórn flokkanna hefur bögglast að stíga skrefið, sem Össur tók, til fulls og draga ESB-umsóknina til baka.

Að ekki hafi tekist að koma Íslandi af þessu gráa svæði gagnvart ESB er þeim mun einkennilegra fyrir þá sök að undanfarin tvö ár hefur öll framvinda mála innan ESB verið á þann veg að minni áhugi er nú en nokkru sinni fyrr í tvo áratugi á að stækka ESB frekar.

Innan sambandsins eiga menn fullt í fangi með að móta sameiginlega afstöðu til stórmála sem upp koma. Þrjú skulu nefnd: (1) leiðin út úr skuldakreppu evru-ríkjanna, (2) afstaðan til Rússlands og (3)  framtíð Breta innan ESB.

Til að eyða óvissu eftir þingkosningar og stjórnarmyndun í Grikklandi hamra ráðamenn innan ESB á einni setningu: orð skulu standa. Yfirlýsingarnar staðfesta enn einu sinni að EES-samningur Íslands og ESB stendur þótt ESB-umsóknin verði dregin til baka.

Gríska ríkisstjórnin ætlar að nýta umboðið sem hún fékk til hins ýtrasta gagnvart ESB. Íslenska ríkisstjórnin hefur sýnt alltof mikið hik við að nýta umboðið sem hún fékk gagnvart ESB.