Þriðjudagur 27. 01. 15
Jón Ólafsson, prófessor við háskólann á Bifröst, var formaður samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Á dv.is má í dag lesa hugleiðingu hans um gildi siðareglna en það ráðist af vilja þeirra sem þurfa að lúta þeim að gera það. Þá segir prófessorinn:
„Ef svo hefði verið um innanríkisráðherra hefði hún að sjálfsögðu getað nýtt sér siðareglur ráðherra, gildar eða ógildar. Ef samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna hefði verið starfandi hefði nú líka getað leitað ráða hjá henni, en eitt hlutverk nefndarinnar var að gefa starfsmönnum stjórnsýslunnar og ráðherrum ráð þegar þeir stæðu frammi fyrir siðferðilegum álitamálum.
Forsætisráðherra kaus hins vegar að skipa nefndina ekki eftir að hann tók við embætti og nú hefur verið lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að hún verði lögð niður.“
Í þessum orðum er litið fram hjá því að innanríkisráðherrann var í þeirri ótrúlegu aðstöðu að við hlið hennar var aðstoðarmaður sem sagði ráðherranum ekki sannleikann. Ráðherrann var í góðri trú um að ekkert ólöglegt hefði verið gert innan veggja ráðuneytisins í lekamálinu.
Þegar sannleikurinn kom í tók ráðherrann snarlega af skarið, rak aðstoðarmanninn og sagði síðan af sér. Ráðherrann fyrrverandi tók síðan mið af því sem fram kom í athugun sem umboðsmaður alþingis hóf, ritaði umboðsmanni bréf, viðurkenndi mistök sín og auðveldaði þannig umboðsmanni að ljúka athugun sinni en í niðurstöðunni seildist hann langt eftir lögfræðilegum rökum.
Í áliti umboðsmanns er vikið að skyldu ráðherra til að leita sér ráðgjafar. Umboðsmaður minnist hins vegar ekki á nefndina þar sem Jón Ólafsson var formaður áður en hún hvarf úr sögunni.
Ég hef sagt margsinnis að með því að eyðileggja dómsmálaráðuneytið var unnið skemmdarverk á stjórnarráðinu. Skal þetta enn áréttað, þetta skemmdarverk er miklu alvarlegra en að ekki sé skipað í nefnd að nýju. Þetta mál segir mér að með brotthvarfi dómsmálaráðuneytisins hafi horfið þekking og reynsla í nánasta samstarfsliði ráðherrans.