22.1.2015 19:00

Fimmtudagur 22. 01. 15

Tveir fyrirlestrar í röð Miðaldastofu um landnám Íslands voru fluttir síðdegis í dag í Háskóla Íslands.

Sveinbjörn Rafnsson, doktor í sagnfræði og prófessor emeritus, kallaði fyrirlestur sinn: Að trúa landnámu.

Marion Lerner, menningar- og þýðingafræðingur, lektor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, kallaði sinn fyrirlestur: Pólitísk goðsögn í framkvæmd. Íslensk ferðafélög og landnám í upphafi 20. aldar.

Eins og jafnan þegar Miðaldastofa við Háskóla Íslands efnir til fyrirlestra sótti þessa fjöldi áheyrenda. Bæði vörpuðu Sveinbjörn og Marion íhugunarverðu ljósi á viðfangsefni sitt. Sveinbjörn færir sterk rök fyrir að Landanámabók hafi verið skrifuð til að árétta stöðu lýðveldis eða þjóðveldis á Íslandi gagnvart ásælni konunga á 11. öld. Marion setur uppruna Ferðafélags Íslands í nýtt samhengi með því að kenna það við nýtt landnám. Hún kallar það „landnám inn á við“, það er viðleitni til að auðvelda landsmönnum að kynnast eigin landi.

Morgunblaðiðhefur í vikunni birt fróðlegar frásagnir um flutning Íslendinga til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar eftir hrun. Viðmælendurnir telja lífsgæði meiri í þessum löndum en á Íslandi meðal annars vegna þess hve umræðan sé neikvæð hér.

Án þess að styðjast við fræðilega rannsóknarniðurstöðu held ég að umræðan sé neikvæðari hér á landi en annars staðar vegna þess hve fjölmiðlar birta mikið af „fréttum“ um óorðna hluti, það er alls konar hrakspár aðila sem sjá sér hag af hræðsluáróðri í von um að afla málstað sínum fylgis með honum.

Þessa áráttu fjölmiðlamanna hér má rekja til þess hve háðir þeir eru efni sem miðlað er til þeirra af hagmunamiðlurum í stað þess að hafa þekkingu,vilja eða getu til að greina það sem raunverulega hefur gerst og leggja það til grundvallar. Hyrfu hrakspárfréttir úr fjölmiðlum yrði strax mun bjartara yfir umræðum.