11.1.2015 19:20

Sunnudagur 11. 01. 15

Le Monde segir að í dag hafi um fjórar milljónir Frakka farið út á götur og torg til að verja frelsi sitt eftir hryðjuverkin á miðvikudag, fimmtudag og föstudag sem urðu 17 saklausum einstaklingum að bana auk þess sem þrír hryðjuverkamenn féllu í átökum við lögreglu. Var magnað að fylgjast með framvindu göngunnar í París þar sem á fimmta tug forseta, forsætisráðherra og annarra ráðamanna frá öðrum ríkjum slógust í för með François Hollande Frakklandsforseta, ríkisstjórn Frakklands og fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Á mbl.is er skýrt frá því að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra hafi verið boðið að taka þátt í göngunni í París. Hann hafi ekki haft tök á að þiggja boðið, aðstoðarmaður hans segist ekki vita hvað kom í veg fyrir för hans til Parísar. Hér má sjá lista yfir erlenda ráðamenn sem voru í París í dag.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig umræður þróast í Frakklandi og hvort í raun takist að sameina þjóðina eins og forsetinn hefur boðað frá því að hann ávarpaði hana fyrst eftir árásina á Charlie Hebdo miðvikudaginn 7. janúar.

Athyglisvert er hve virkur forsetinn hefur verið frá fyrstu stundu eftir hryðjuverkið. Hann fór strax að ritstjórnarskrifstofu vikublaðsins eftir árásina og í dag gekk hann til þeirra starfsmanna þess sem lifðu af árásina og faðmaði þá og aðstandendur hinna látnu starfsmanna blaðsins. Frankfurter Allgemeine Zeitung segir að hinum óvinsæla Frakklandsforseta hafi tekist að skapa samstöðu með þjóðinni og það styrki hann í sessi.