1.1.2015 15:30

Fimmtudagur 01. 01. 15 - nýársdagur

Gleðilegt ár 2015!

Í áramótaávarpi sínu sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra:

„Enn eru í landinu höft á flutningi fjármagns. Stærsta hindrunin í afnámi hafta eru svokölluð slitabú hinna föllnu banka en þau hafa þegar starfað lengur en æskilegt getur talist. Framan af nutu slitabúin skattleysis þrátt fyrir að vera að flestu leyti rekin eins og fyrirtæki. En með skattlagningu búanna er það efnahagslega svigrúm sem er óhjákvæmilegur liður í afnámi hafta nú loks byrjað að myndast.

Það er nauðsynlegt að þessi fyrirtæki leggi sitt af mörkum til samfélagsins.

Víða erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum, hafa fjármálafyrirtæki, sem í flestum tilvikum var haldið gangandi með aðgangi að ríkiskassa landanna verið látin greiða himinháar sektir ofan á endurgreiðslu lána til að bæta samfélögunum það tjón sem hlotist hafði af framgöngu þeirra.“

Þetta er allt annar tónn í afstöðu til slitabúa bankanna en á valdatíma Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

Víglundur Þorsteinsson hefur barist fyrir afhendingu skjala sem sýna að skömmu eftir að Steingrímur J. varð fjármálaráðherra á útmánuðum 2009 lögðust stjórnvöld flöt fyrir erlendum kröfuhöfum og bættu hlut þeirra umfram það sem ákveðið var í neyðarlögunum frá október 2008. Þetta gerðu Steingrímur J. og félagar í sama anda og einkenndi hina hörmulegu Icesave-samninga sem þjóðin hafnaði að lokum og síðan reyndust reistir á röngum lagaskilningi.

Um leið og farið var að óskum kröfuhafa og slitastjórnum veitt svigrúm sem jafna má við sjálftöku þeirra sem í þeim sitja prédikuðu stjórnarherrarnir að ekki væri unnt að aflétta höftunum nema með því að ganga í Evrópusambandið. Það var auðvitað blekking eins og allt annað sem ESB-aðildarsinnar hafa sagt til að fegra málstað sinn.

Margt illt gerði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í skjóli orðanna „en hér varð hrun“, undanslátturinn gagnvart erlendu kröfuhöfunum er þó líklega svartasti bletturinn. Einkennilegt er hve núverandi stjórnarsinnar hlífa Samfylkingunni og VG vegna þessa ömurlega þáttar í embættisverkum ráðherra þeirra. Takist ríkisstjórninni áformin sem forsætisráðherra boðaði í hinum tilvitnuðu orðum hér að ofan verður árið 2015 enn til rétta hlut þjóðarinnar fyrir tilstilli hennar.