25.1.2015 20:45

Sunnudagur 25. 01. 15

Allt benti til að Syriza, bandalag róttækra vinstrisinna, systurflokkur VG, ynni stórsigur í þingkosningunum í Grikklandi í dag, þegar fjórðungur atkvæði höfðu verið talin. Flokkurinn fengi 35,4% atkvæða en Nýi lýðræðisflokkurinn (mið-hægriflokkur) 29%, Antonis Samaras forsætisráðherra er formaður þess flokks.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, hefur lofað að ná hagstæðum samningum við þríeykið, ESB, Seðlabanka evrunnar (SE) og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS), neyðarlánveitanda Grikkja sem þeir skulda um 240 milljarða evra. Í upphafi var Tsipras andvígur aðild Grikkja að evru-samstarfinu en hefur stig af stigi mildað afstöðu sína til hennar enda telur meirihluti Grikkja of hættulegt að kasta evrunni fyrir róða.

Framvinda stefnu Syriza gagnvart evrunni og ESB minnir á hvernig VG hefur þróað stefnu sína gagnvart ESB. Af því að VG telur þann kost bestan fyrir sig að vera samstarfshæfur flokkur fyrir ESB-aðildarflokkinn, Samfylkinguna, hafa forystumenn VG valið svipaða stefnu í ESB-málum og Framsóknarflokkurinn gerði í varnarmálum fram til 1978: að vera opinn í báða enda.

Alexis Tsipras vill ekki verða hornreka innan ESB og þess vegna er ekki ólíklegt að hann hagi sér líkt og Steingrímur J. Sigfússon gerði að loknum kosningum í apríl 2009 þegar hann kúventi og gekk á bak orða sinna varðandi ESB-umsóknina. Þau brigð urðu síðan hluti af blekkingarleiknum um að unnt væri að fara í könnunarleiðangur til Brussel.

Undir stjórn Tsipras og Syriza verður stofnað til pólitískrar ESB-leiksýningar. Því verður til dæmis hampað að Grikkir fái ekki notið loforðs SE um kaup á ríkisskuldabréfum fari þeir ekki að skilmálum þríeykisins með t. d. lengri lánstíma.

Minnast má þess að Steingrímur J. var alfarið á móti AGS-samningum utan stjórnar en uppveðraðist við skjall AGS-manna og hældi sér af því að á fundi AGS í Washington hefðu menn sagt að senda ætti hann til að bjarga Grikkjum.