30.1.2015 22:40

Föstudagur 30. 01. 15

Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor birtir snarpa ádeilugrein í Morgunblaðinu í dag og má lesa hana hér.

Greinin snýst um bók sem Gísli Pálsson, mannfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, ritstýrir ásamt Bandaríkjamanni. Hún heitir Gambling Debt. Iceland‘s Rise and Fall in the Global Economy.

„Í henni er hvellur reiðitónn, sem fer illa í vísindariti, en rómverski sagnritarinn Tacitus sagði forðum, að segja ætti sögur „sine ira et studio“, án reiði og ákafa,“ segir Hannes Hólmsteinn og bendir síðan á ýmsa vankanta og villur í bókinni sem hefur að geyma ritgerðir eftir nokkra fræðimenn.

Efnistökunum lýsir Hannes Hólmsteinn þannig:

„Aðferðin í þessari bók er einföld. Hún er að hrúga saman ýmsum hugmyndum, sem höfundum er í nöp við, og kalla einu nafni orsök, en lýsa síðan bankahruninu sem afleiðingu þessara hugmynda.“

Nikos Kotzias, nýr utanríkisráðherra Grikklands, er undir smásjá fjölmiðla víða um Evrópu og er rifjað upp að hann hafi á sínum tíma verið félagi í Kommúnistaflokki Grikklands. Af störfum hans sem prófessor í háskólanum í Piraeus álykta margir blaðamenn að hann sé hallur undir Rússa, hann hafi til dæmis tekið þar  á móti Alexander Dugin, stór-rússneskum þjóðernissinna.

Fyrir fund utanríkisráðherra ESB-ríkjanna fimmtudaginn 29. desember var látið í veðri vaka að Grikkir mundu ekki styðja áform ríkjanna um að refsa Rússum. Þegar Kotzias kom til Brussel sagðist hann ekki ætla að bera blak af Rússum heldur hefði hann viljað fá tíma til að kynna sér gögn fundarins – innan ESB yrðu menn að sætta sig við að fulltrúar smáþjóða vildu búa sig undir fundi og hafa sína skoðun á viðfangsefnum þeirra.

Það segir sína sögu að þessi sjálfsagða afstaða utanríkisráðherrans þyki fréttaefni.