10.1.2015 23:30

Laugardagur 10. 01. 15

Í vefblaðinu Kjarnanum segir frá því í dag að Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrv. dómari við hæstarétt, vilji að Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem fer með dómsmál í ríkisstjórninni, höfði mál á hendur Markúsi Sigurbjörnssyni, forseta Hæstaréttar. Þetta hafi komið fram í Vikulokunum á rás 1 í dag.

Í fljótu bragði hefði mátt ætla að fréttastofa ríkisútvarpsins teldi ummæli Jóns Steinars fréttnæm. Í stað þess þótti fréttamönnunum tíðindum sæta að Jón Steinar vildi að alþingi afnæmi lagagrein sem gerði refsivert að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags hér á landi, eins og sagði í fréttum ríkisútvarpsins.

Í Kjarnanum er vitnað í Jón Steinar sem sagði:

 „Það sem kemur mér kannski meira á óvart er að fjölmiðlarnir hafi ekki staðið sig betur. Vegna þess að mér finnst þetta vera tíðindi[…]Þetta eru alla vega frásagnir af atburðum í opinberu lífi um misnotkun á valdi þar sem síst skyldi[…]Það sem ég lýsi í bókinni eru auðvitað freklegt brot gegn starsskyldum hæstaréttardómara. Mér fannst það alveg skelfilegt fyrir mig og ég vona að öllum finnist það.“

Jón Steinar hlýtur að telja það enn frekari staðfestingu á orðum sínum að fréttastofan metur fréttnæmara að hann taki undir með pírötum um að heimila beri guðlast en að hann vilji að innanríkisráðherra höfði mál á hendur forseta hæstaréttar.