14.1.2015 19:10

Miðvikudagur 14. 01. 15

Í dag ræddi ég á ÍNN við Jón G. Friðjónsson prófessor um bók hans Orð að sönnu þar sem birtir eru málshættir og orðskviðir með skýringum. Þátturinn verður sýndur klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Viðtal mitt við Pétur Óla Pétursson í St. Pétursborg er komið á netið og má sjá það hér.

Í dag lýsti ég á Evrópuvaktinni undrun minni á umræðunum um utanríkismál í landinu um þessar mundir eða skort á þeim og má lesa það hér.

Eins og sjá má á textanum botna ég ekkert í þeim sem halda í þá skoðun að aðildin að Schengen sé undirrót þess vanda sem að steðjar hér og veldur ótta margra við útlendinga. Þessi skoðun er einföldun á flóknu viðfangsefni sem verður ekki auðveldara viðfangs með úrsögn úr Schengen.

Ítarlega var kannað hvort aðild að Schengen bryti í bága við stjórnarskrána og var það álit sérfróðra manna að svo væri ekki. Íslendingar ættu ekki aðild að Europol, Evrópulögreglunni, væru þeir ekki í Schengen-samstarfinu, ekki heldur að Eurojust eða öðru slíku samstarfi, þeir hefðu ekki heldur aðgang að gagnagrunnum Schengen-ríkjanna. Segi menn rangt til nafns eða gefi upp rangan fæðingardag við skráningu í flug eða nota fölsuð skilríki gildir hið sama hvort sem ríki eru utan eða innan Schengen að þeir geta villt á sér heimildir. Það fer eftir árvekni við eftirlit hvort mönnum tekst að svindla - eftirlit er unnt að stórauka í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að sjálfsögðu var það pólitísk ákvörðun að ganga í Schengen og það er einnig pólitísk ákvörðun að slíta samstarfinu. Er einhver stjórnmálaflokkur með það á stefnuskrá sinni.