21.1.2015 21:40

Miðvikudagur 21. 01. 15

Í dag birtist á ÍNN viðtal mitt við Magnús Lyngdal Magnússon, skrifstofustjóra miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands, um meistara- og doktorsnám við skólann. Á árinu 2014 voru 82 doktorsvarnir við skólann og voru margir útlendingar í þeim hópi. Næst má sjá samtal okkar klukkan 22.00 og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Auðvelt er að skilja að nýjasta kvikmynd Clints Eastwoods, American Sniper, veki heitar tilfinningar og deilur í Bandaríkjunum. Sagan er átakanleg og höfðar sterkt til samtímans enda nýtur kvikmyndin mikilla vinsælda meðal áhorfenda í Bandaríkjunum en sætir gagnrýni þeirra sem vilja ekki að Bandaríkjamenn eigi stríðshetjur.

Vinstrisinninn Michael Moore segir leyniskyttur hugleysingja. Sarah Palin, fyrrv. frambjóðandi repúblíkana sem varaforseti, fagnar því að Eastwood skuli heiðra bandaríska herinn og liðsmenn hans.

Clint Eastwood hefur gert nokkrar kvikmyndir sem lýsa ævi einstaklinga sem öðlast sérstöðu. Þessi mynd er í þeim flokki og viðfangsefnið er sérstætt því að söguhetjan Chris Kyle er sú leyniskytta innan bandaríska hersins sem fellt hefur flesta með vopni sínu.

Myndin hefur verið tilnefnd sem ein af bestu myndunum við úthlutun Óskars-verðlaunanna og Bradley Cooper hefur hlotið tilnefningu sem besti karleikarinn – hann bætti við sig 20 kílóum til að falla betur inn í hlutverkið sem Chris Kyle.