Föstudagur 02. 01. 15
Landhelgisgæsla Íslands hefur í sex ár tekið tímabundið þátt í verkefnum á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Hlutverk Frontex er að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins þar sem Ísland er meðal aðildarlanda og eiga íslensk stjórnvöld fulltrúa í stjórn Frontex. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Varsjá.
Landhelgisgæslan hefur sent gæsluvélina Sif og varðskip til þátttöku í verkefnum Frontex en þau hafa breyst í tímans rás eftir því hvernig tilraunum manna til að laumast inn á Schengen-svæðið hefur verið háttað. Um tíma var varðskip til dæmi við störf á milli Kanarí-eyja og Afríku.
Nú er varðskipið Týr við gæslustörf á Miðjarðarhafi og frá því að skipið lét úr höfn hér á landi hinn 20. nóvember sl. hefur það tekið þátt í fjórum aðgerðum þar sem um 2.000 manns hefur verið bjargað.
Um þessar mundir er Týr á leið til suður-ítalska hafnarbæjarins Corigliano með flutningaskipið Ezadeen í togi. Áhöfn skipsins yfirgaf það og skildi um 450 vegalaust fólk eftir um borð í því þar af 40 til 60 börn. Talið er að flestir séu Sýrlendingar á flótta frá borgarastríðinu í landi þeirra, fólk sem greitt hafi glæpamönnum fyrir að koma sér til Evrópu.
Þetta er nýjasta aðferðin sem glæpamenn nota við að smygla fólki: að safna því hundruðum saman um borð í skip á úreldingarstigi, sigla með það á haf út og skilja þar eftir bjargarlaust. Einhver um borð í Ezadeen kunni á talstöð og gat sent neyðarkall áður en skipið sigldi eða rak í strand – það varð vélarvana vegna olíuleysis eftir að Týr kom að því.
Týr og Landhelgisgæsla Íslands kemst í heimsfréttir vegna björgunar Ezadeen og mynd tekin úr varðskipinu af skipinu í togi birtist í fjölmiðlum um heim allan.
Það hefur hvílt gæfa yfir störfum varðskipsmannanna á Miðjarðarhafi en þeir takast þar á við verkefni sem er einkenni hinnar miklu neyðar sem skapast hefur í Mið-Austurlöndum og í Afríku vegna stríðsátaka. Ráðamenn innan Evrópusambandsins og Frontex-ríkjanna verða finna önnur úrræði en þau að halda úti vösku björgunarliði á Miðjarðarhafi til að skapa lífvænlegar aðstæður í heimabyggðum þess fólks sem leitar á náðir glæpamanna í von um skjól.