6.1.2015 19:00

Þriðjudagur 06. 01. 15

Ég var í hópi þeirra sem ákváðu í dag að leggja ekki á Hellisheiðina vegna viðvörunar veðurfræðinga. Undir kvöld les ég á visir.is  að Stefán Þormar Guðmundsson, vertinn á Litlu kaffistofunni,  sé ósáttur við að veðurfræðingar segi fólki hvort fært sé yfir Hellisheiðina eða ekki, vegagerðarmenn eigi að gera það. Í því felist „forræðishyggja“ að „segja hvenær eigi að ferðast og hvenær eigi ekki að ferðast“.

Veðurfræðingar skipti sér  alltof oft af því hvort fólk eigi að vera á ferðinni, fólk eigi að ráða því sjálft hvort það fari af stað eða ekki. „Með þessu að veðurfræðingar eru að segja svona eru þeir að gera hálfa þjóðina að einnota guðsgeldingum í ferðalögum, þeir bara hreyfa sig ekki,“ segir vertinn í Litlu kaffistofunni. Þá sé hitt ótækt að veðurfræðingar vari við veðrum sem ekki láti sjá sig.

Stefán segist alltaf hafa komist í vinnuna í þau 23 ár sem hann hafi rekið Litlu kaffistofuna, óháð veðri og vindum. „Ég kemst með því að stoppa þegar ég sé ekki en sumir keyra þó þeir sjái ekki neitt og þeir eru alltaf út af veginum eða aftan á næsta bíl en það er ekki við veðurfræðingana að sakast,“ er haft eftir honum á visir.is.

Um þær mundir sem ég skrifa þetta 18.30 sé ég á korti vegagerðarinnar að Þrengslin eru lokuð en bílum er ekið yfir Hellisheiði. Ég er þó ósköp feginn að hafa getað frestað ferð minni.

Ps.  klukkan 19.10 mátti lesa á mbl.is:

Búið er að loka Þrengsl­un­um en þar sitja marg­ir öku­menn fast­ir. Búið er að kalla út björg­un­ar­sveit­ir þeim til aðstoðar.

Veg­in­um um Hell­is­heiði verður að öll­um lík­ind­um lokað fljót­lega en þar er orðið þung­fært og lítið skyggni. Þeir bíl­ar sem aka um heiðina þessa stund­ina sil­ast áfram að sögn lög­regl­unn­ar á Suður­landi.

Upp­fært kl. 19.57

Búið er að loka Hell­is­heiðinni og veg­in­um um Sand­skeið.