Mánudagur 6.9.1999
Klukkan 15.20 kom Walter Schwimmer, nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, í heimsókn í ráðuneytið. Hann tók við störfum 1. september, en áður var hann austurrískur þingmaður og minnist ég hans frá þeim árum, þegar ég sat á þingi Evrópuráðsins. Klukkan 17.00 fór ég í Nýja garð, þar sem Tungumálastofnun Háskóla Íslands var opnuð. Þessi nýjung í starfi skólans minnir á þá staðreynd, að tungumálakunnátta er nauðsynleg í öllum greinum eins og tölvukunnátta. Klukkan 18.00 var athöfn í Skólabæ í tilefni af því að framhaldsnám er að hefjast í sálarfræði við Háskóla Íslands.