5.7.2008 20:40

Laugardagur, 05. 07. 08.

Ómar Valdimarsson, áður um árabil alþjóðastarfsmaður í Afríku, nú fréttamaður á Stöð 2, sagði frá því í kvöldfréttum, að pólitískir flóttamenn þekktust ekki frá Kenýa, fyrir utan einn, sem hefði afhjúpað stórfellt opinbert hneykslismál og búið í Bretlandi síðan 2005. Starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana og fjölmiðlamenn í Kenýa teldu „af og frá“, að nokkur þyrfti að óttast um líf sitt vegna þátttöku í kosningunum í landinu 3. janúar sl., eftir að stjórnmálafriður varð í landinu fyrr á þessu ári og stjórnarsandstaða úr sögunni með samstarfi stærstu stjórnmálaflokka landsins,

Jónas H. Haralz og Einar Benediktsson rita grein í Morgunblaðið í dag um nauðsyn þess, að Ísland undirbúi inngöngu í Ervrópusambandið. Okkur, sem þekkjum þá báða vel og af góðu einu, kemur þessi skoðun þeirra ekki á óvart, hún er gamalkunn. Nú færa þeir gjaldmiðilsrök fyrir máli sínu og viðhorf í öryggismálum, eftir að Bandaríkjaher er af landi brott. Ber að fagna því, að menn með jafnmikla reynslu leggi sitt af mörkum til málefnalegra umræðna um brýn álitaefni líðandi stundar.

Guðmundur Magnússon minnir á, að umræðan um evruna og Ísland snýst ekki um tæknileg úrlausnarefni heldur pólitík. Stefán Már Stefánsson, prófessor, sem er manna best að sér um samningsbundið samstarf okkar við Evrópusambandið (ESB) og Evrópurétt, og Guðmundur Magnússon, hagfræðiprófessor, sem átti stóran þátt í aðild Íslands að EFTA um 1970, hafa talið unnt að semja við ESB um aðild Íslands að evrópska myntsamstarfinu. Þá eru dæmi um, að ESB hefur heimilað ríkjum utan ESB að nota evru: San Marínó, Vatíkanið, Mónakó og Andorra. Þetta er gert á grundvelli stofnsamnings ESB og sannar, að lögmæti til slíkra samninga er fyrir hendi.  Það er því ástæða til að taka undir þau orð Guðmundar, að málið snýr frekar að póltík en lögfræði.