15.7.2008 5:56

Þriðjudagur, 15. 07. 08.

Þorsteinn Pálsson segir í leiðara Fréttablaðsins í dag:

„Fyrir rúmu ári skilaði Evrópunefnd þáverandi ríkisstjórnar undir forystu dómsmálaráðherra áliti um stöðu Íslands í Evrópu. Helstu pólitísku tíðindin við útkomu þeirrar skýrslu fólust í formlegu bandalagi Sjálfstæðisflokksins og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs með undirritun sameiginlegrar bókunar um afstöðu flokkanna til þessa stærsta álitaefnis í utanríkispólitík samtímans.

Yfirlýsing dómsmálaráðherra nú hefur að sama skapi verulegt pólitísk gildi. Hún verður ekki skilin á annan veg en að bandalagið við VG sé úr sögunni. Það opnar fyrir frekari þróun þessarar umræðu. Jónas Haralz og Einar Benediktsson hafa nýverið fært fram sterk rök fyrir því að það verði gert í víðtækara samhengi en lýtur að efnahags- og peningaumræðunni.“

Ég verð að hryggja Þorstein með því, að hugleiðingar mínar um lögheimildir Evrópusambandsins til að semja við þriðju ríki um evruna, breyta engu um sameiginlega niðurstöðu mína og fulltrúa vinstri/grænna í Evrópunefndinni - hún snerist einfaldlega ekki um evruna eða íslensku krónuna heldur afstöðuna til aðildar að Evrópusambandinu. Ég er þeirrar skoðunar, að ekki þurfi aðild vilji menn semja við Evrópusambandið um samstarf í peninga- og gjaldeyrismálum.

Leiðari Morgunblaðsins í dag ber fyrirsögnina: Ófær „evruleið“. Ég sendi blaðinu grein, sem ég vona að það birtist þar á morgun. Hún ber fyrirsögnina: Ekki lokað vegna ófærðar.

Björg Eva Erlendsdóttir, fréttastjóri á 24 stundum, ritar leiðara í dag undir fyrirsögninni: Eigin fjölmiðlar. Hann hefst á þessum orðum:

„Fjölmiðlar eru ekki hátt skrifaðir hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra. Það er sjálfsagt ein af ástæðum þess að hann lætur þá oft róa og kýs að tjá sig eingöngu á sínum eigin miðli, bjorn.is.“

Allar athugasemdir mínar vegna framgöngu fjölmiðla byggjast á dæmum, sem ég birti á vefsíðu minni. Ég læt enga fjölmiðla róa, legg mig þvert á móti fram um að svara öllum tilmælum, sem ég fæ frá fjölmiðlamönnum. Ég kýs frekar að gera það við tölvuna en í síma. Það er öruggasta leiðin, til að rétt sé eftir mér haft. Lýsi ég fréttnæmri skoðun á vefsíðu minni, hef ég almennt ekki neinu við málið að bæta og segi það við fjölmiðlamenn.

Björg Eva ritar leiðarann til að bera blak af fréttastofu hljóðvarps ríkisins, sem datt í þann pytt sl. sunnudag að fara ranglega með skoðun á vefsíðu minni, eins og ég rek í þessari færslu. Björg Eva segir:

„Ólíklegt er að fréttamaður RÚV hafi rangtúlkað Björn Bjarnason viljandi. Ráðherrann mætti kannski íhuga hvort ástæða sé til að verða við óskum um viðtöl, þegar hann fjallar um fréttnæm málefni.

Fyrir almenning sem vill vitræna umræðu um gjaldmiðlinn er slæmt að þurfa að rekja sig í gegnum þvætting og þras sem kemur til af því að Björn vill ekki svara spurningum en situr á eintali á eigin miðli. Hvað var Björn að segja? Er brotið blað í gjaldeyrisumræðunni eða alls ekki?

Þjónum almennings, ráðherrum, oddvitum, biskupum og hvað þeir nú allir heita, ber að svara spurningum, jafnvel þótt þeir hafi ekki sjálfir samið þær fyrirfram.“

Þetta er skrýtin þula. Þar sem ég gaf mér ekki tíma til að skýra sjálfur fyrir fjölmiðlamanni augljósan texta á eigin vefsíðu, get ég sjálfum mér um kennt.

Úr því að ég sagði skoðun mína um evruna á eigin vefsíðu og lét þar við sitja, hefur almenningur „þurft“ að „rekja sig í gegnum þvætting og þras“ um gjaldmiðilinn. Ekki hef ég birt þau orð, sem Björg Eva lýsir á þennan hátt. Væri ekki nær að spyrja: Hvers vegna eru fjölmiðlar að birta „þvætting og þras“?

Loks er ýjað að því, að ég semji spurningar fjölmiðlamanna til mín fyrirfram. Enginn fótur er fyrir þessu enda alrangt.