9.7.2008 19:46

Miðvikudagur, 09. 07. 08.

Sjónvarpið sýndi mynd um hálsbönd á sauðfé. Þau gera kleift, að fylgjast með ferðum áa og lamba. Sem sauðfjáreigandi hef ég áhuga á þessum búnaði. Eitt af lömbum mínum týndi líklega móður sinni. Ég gæti fundið lambið með þessari tækni. Hitt var ekki síður merkilegt í hljóðvarpinu, að norski sauðfjárstofninn er orðinn svo kynbættur, að hann þekkir ekki hættuna af úlfum og er því auðtekinn bráð.

Síðdegis var ég um borð í bresku freigátunni Exeter, þar sem fagnað var ferðum skipalestanna til Murmansk í síðari heimsstyrjöldinni. Ráðstefna verður um þær á morgun og föstudag í Háskóla Íslands.

Margir undrast, að Árni Johnsen hafi verið kallaður til viðtals í Kastljósi í gærkvöldi vegna dómsdagsgreinar um réttarvörslukerfið í Morgunblaðinu sl. sunnudag. Óli Björn Kárason ræðir greinina hér og hef ég engu við hana að bæta.

Ég nefndi þessa grein Árna sl. sunnudag vegna undrunar minnar yfir því, að Jóhannes, kaupmaður í Bónus, teldi almenning ætla að grípa til vopna gegn okkur Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra.

Baldur Guðmundsson, blaðamaður á DV, vitnar í þessa veffærslu mína í grein í blaði sínu 8. júlí, án þess að segja frá á réttan hátt, nema Baugsritstjórar hafi gripið í taumana.

Baldur gefur til kynna, að Jóhannes í Bónus, eigandi DV, hafi veist að mér og ríkislögreglustjóra vegna Baugsmálsins. Blaðamaðurinn lætur að engu getið, að Jóhannes í Bónus boðaði, að almenningur mundi grípa til vopna og gera út af við okkur ríkislögreglustjóra. Hvers vegna sleppir Baldur þessu? Er þetta ekki í raun fréttnæmast? Kannski ekki frá Baugshóli?

Jóhannes í Bónus gekk lengra í stóryrðum en Árni Johnsen. Skyldi Jóhannes fá einkaviðtal í Kastljósi?