Sunnudagur, 13. 07. 08.
„Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf (það er við Evrópusambandið), það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin.“
Ofangreind orð um Evruleið í pistli mínum frá því í gær eru hiklaust túlkuð þannig af fréttastofu hljóðvarps ríkisins í kvöldfréttum, að ég sé að leggja til einhliða upptöku evru á Íslandi. Það stendur hvergi í pistli mínum. Þvert á móti ræði ég, hvort með evruaðild megi skjóta þriðju stoðinni undir samstarf Íslands og Evrópusambandsins - það yrði ekki gert einhliða af Íslands hálfu heldur á grundvelli samninga við Evrópusambandið. Ég tel, að lögheimildir séu fyrir hendi innan sambandsins til viðræðna við okkur um slíkt samstarf.
Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, hljóp upp til handa og fóta vegna þessarar rangtúlkunar fréttastofunnar og taldi sig fá uppreisn æru vegna gamalla ummæla sinna um einhliðaa upptöku evru. Seinheppni einkennir mest stjórnmálastarf framsóknarmanna um þessar mundir.
Ég hringdi í fréttamanninn og taldi, að rangfærslan yrði leiðrétt í lok frétta. Það var ekki gert. Leiðréttingin kom hins vegar í fréttum kl. 22.00. Aðrir ljósvakamiðlar sögðu frá efni málsins, án þess að afflytja á þann veg, sem gert var í hljóðvarpinu.
Ég átta mig ekki hvort Andrés Jónsson, sem heldur úti vefsíðu í tenglsum við eyjan.is er virkur þátttakandi í stjórnmálum eða ekki. Af ýmsu má þó ráða, að hann telji sig áhrifamann innan Samfylkingarinnar eða hafa þar einhver ítök. Hann virðist mjög ósáttur við, að sjálfstæðismenn taki frumkvæði og er líklega á móti ríkisstjórnarsamstarfinu.