14.7.2008

Vegvísir um Evrópuumræðu

Þjóðmál sumar 2008.



Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll laugardaginn 17. maí og ræddi þar meðal annars um afstöðu sína gagnvart samstarfi við Evrópusambandið (ESB).

Geir sagðist samkvæmt því, sem birtist á mbl.is ekki í vafa um, að þegar vegnir væru kostir og gallar við aðild Íslands að Evrópusambandinu væru kostirnir léttvægari. „Þess vegna vil ég ekki ganga í Evrópusambandið,“ sagði Geir.

Hann ræddi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og sagði, að það hefði í stórum dráttum gengið mjög vel. Skoðanamunur væri þó einhver milli flokkanna eins og eðlilegt væri. Flokkarnir væru ósammála um eitt stórt mál: Evrópumálin. Samfylkingin hefði á stefnuskrá sinni að ganga í Evrópusambandið en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.

Geir sagði, að væri Ísland í Evrópusam-bandinu hefðu stjórnvöld ekki haft jafn mikið svigrúm til að laga sig að breytingum í alþjóðlegu umhverfi og gert hefði verið á síðustu mánuðum. Íslandi hefðu þá verið allar bjargir bannaðar við núverandi aðstæður. Gengi gjaldmiðilsins hefði verið fast og vextir ákveðnir í Seðlabanka Evrópu. Eina svigrúmið hefði gefist á vinnumarkaði, þar sem hægt væri að segja upp fólki og auka þannig atvinnuleysi. „Viljum við það? Ég vil það ekki,“ sagði Geir.

Hann sagði rangt, að Íslendingar yrðu áhrifaþjóð innan ESB. Þeir hefðu á grund-velli samningsins um evrópska efnahagssvæð-ið (EES) ákveðna stöðu gagnvart ESB, „en ég held að ef við værum komnir inn í samband-ið og sætum við þetta stóra borð yrði lítið hlustað á okkar rödd,“ sagði Geir.

Nú stæðu yfir breytingar hjá Evrópu-sambandinu með svonefndum Lissabon-sáttmála. Með honum yrði framkvæmdastjórnarmönnum ESB fækkað og Ísland fengi þá einn slíkan á 5–15 ára fresti ef að líkum léti. Sagði Geir, að hyggilegt væri að sjá hvernig þessar breytingar yrðu, áður en frekari ákvarðanir yrðu teknar. „Mér finnst þetta mál ekki aðkallandi.“

Geir sagði, að sér þætti ýmsir reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja aðild að Evrópusambandinu eitthvert bjargráð í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin væri að vinna í þessum bjargráðum og það væri bjart framundan þrátt fyrir tímabundna erfiðleika nú. „Við þurfum ekki að vera með minnimáttarkennd yfir að vera ekki í Evrópusambandinu,“ sagði Geir H. Haarde.

Ég endursegi texta mbl.is  hér, til að árétta, að ég er Geir sammála og einnig til að minna enn á, að forystumenn Sjálfstæðisflokksins óttast ekki að lýsa skoðunum sínum á kostum og göllum í umræðum um Evrópusambandið. Ég held raunar, að engir stjórnmálamenn aðrir en sjálfstæðismenn séu jafniðnir við að lýsa bæði kostunum og göllunum. Samfylkingarmenn sjá aðeins kostina, vinstri/grænir aðeins gallana og framsóknarmenn vilja ræða allt annað en efni málsins, þegar kemur að Evrópumálunum.

 

*

 

Hinn 20. mars 2008 var ég í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni á Stöð 2 og þar urðu þessi orðaskipti:

 

Sigmundur Ernir: En er ekki Sjálfstæðisflokkurinn að dragast aftur úr í umræðunum um Evrópumálin?

Björn Bjarnason: Nei það held ég ekki, ég held nefnilega að gallinn við þessa Evrópuumræðu sé sá, að það vantar vegvísi [í stað þess] að menn [séu að] tala um þetta endalaust. Þú sérð það nú þegar menn eru að leysa deilumál á alþjóðavettvangi þá tala menn um „roadmap“, að það þurfi einhvern vegvísi til þess að átta sig á því hvað á að gera. Ég held að við ættum að draga hann upp. Þetta er dregið upp í skýrslu sem kom út fyrir ári [frá nefnd sem] ég stýrði varðandi tengsl okkar við Evrópusambandið [Evrópunefnd]. Þar var farið nákvæmlega yfir hvernig málum er háttað í samskiptum okkar og Evrópusambandsins. Við þurfum hins vegar að átta okkur á því að þetta snýr ekki síður að heimavinnu sem við þurfum að vinna, við þurfum að gera þennan vegvísi, við þurfum að átta okkur á því.

Ætlum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja viðræður við Evrópusambandið? Ætlum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu ef viðræðurnar hefjast og fara fram og niðurstaða fæst, ætlum við þá líka að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þá niðurstöðu? Hvernig ætlum við að breyta stjórnarskránni? Hvaða reglur ætlum við að setja um þessar þjóðaratkvæðagreiðslur og annað slíkt? Þetta eru allt verkefni sem við getum alveg rætt hér og þurfum að ræða hér á pólitískum vettvangi áður en við förum að stilla mönnum upp við vegg og segja, heyrðu þú ert með eða á móti Evrópusambandinu. Það er ekki tímabært að tala svona, það er bara verið að dreifa umræðunni um Evrópumálin með því að láta eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé eitthvað á móti því sérstaklega að nálgast Evrópusambandið frekar heldur en aðrir flokkar. Við þurfum að vinna miklu meira hér heima fyrir áður en að við getum farið að tala um þetta á þessum nótum.

Þessi orðaskipti okkar Sigmundar Ernis hafa orðið kveikjan að miklum umræðum.

Mér virðist sumir telja, að nota eigi vegvísinn án þess að ákveðið sé að leggja af stað í ferðalagið. Það er að efna eigi til þjóðaratkvæðagreiðslu eða breyta stjórnarskránni, án þess að fyrst liggi fyrir efnisleg niðurstaða hjá ríkisstjórn og alþingi um, að nauðsynlegt sé með vísan til brýnna og ótvíræðra þjóðarhagsmuna að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

 

*

 

Hinn 3. maí 2008 flutti Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, ræðu á miðstjórnarfundi flokksins og ræddi þar um tengslin við Evrópusambandið.

 

Þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og deilur um það mál voru hæstar 1992 til 1994 klofnaði þingflokkur framsóknarmanna. Sumir, þar á meðal Guðni, stóðu með Steingrími Hermannssyni, þáverandi flokksformanni, og greiddu atkvæði gegn EES-aðild en aðrir, þar á meðal Valgerður Sverrisdóttir, núver-andi varaformaður Framsóknarflokksins, stóðu með Halldóri Ásgrímssyni og sátu hjá við atkvæðagreiðsluna á alþingi. Þessar fylkingar takast enn á innan Fram-sóknarflokksins jafnt um Evrópumál sem ýmis önnur málefni.

Í ræðu sinni á miðstjórnarfundinum reyndi Guðni að halda flokki sínum saman með því að sparka Evrópumálunum út af vellinum og láta eins og breyta ætti stjórnarskrá og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að fyrst lægi fyrir tillaga stjórnvalda, um að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið.

Guðni vill, að stjórnarskránni verði breytt á þann veg, að framselja megi vald til alþjóðastofnana umfram það, sem gert hefur verið til þessa. Hann sagði: „Hvort sem menn meta hagsmunum okkar betur borgið utan eða innan Evrópusambandsins tel ég því mikil-vægt að ráðist verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá okkar til að mæta þeim kröfum sem alþjóðlegt samstarf kallar á . . . Þessum nauðsynlegu breytingum ætti að vera unnt að ljúka í lok þessa kjörtímabils og upphafi þess næsta, eða árið 2011 í síðasta lagi.“

Guðni sagði kristalstært að íslenska þjóðin yrði að úrskurða um aðild að Evrópusam-bandinu — „bæði hvort yfirhöfuð skuli ráðist í aðildarviðræður og eins varðandi samþykkt eða synjun aðildar að loknum samningaviðræðum, ef til aðildarviðræðna kemur.“ Þess vegna ætti alþingi að setja lög og ákvæði í stjórnarskrá um atriði, sem snertu þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðni spurði, hvort setja ætti lágmarksskilyrði um þátttöku atkvæðisbærra manna í slíkri atkvæðagreiðslu. Hann spurði: „Hversu afgerandi þarf niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu að vera? Á einfaldur meirihluti að ráða eða á að gera kröfur um aukinn meirihluta? Í kjölfar slíkrar atkvæðagreiðslu þarf einnig að liggja fyrir hversu stóran hluta þingmanna þarf til að samþykkja atriði sem lúta að valdaframsali til fjölþjóðlegra stofnana. Þar er mjög líklegt að menn muni staldra við hlutfallið 2/3.“

Guðni minntist þess, að Alþingi gat ekki náð saman um þjóðaratkvæðagreiðslu í fjölmiðlamálinu árið 2004. Það væru því mörg atriði sem huga þyrfti að og leysa til að tryggja eðlilegan og sanngjarnan feril málsins. Fyrr en búið væri að taka á þessum málum yrði ekki unnt að taka ákvörðun um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er sammála Guðna um þá þætti, sem hér hafa verið raktir.  Hann skilar hins vegar í raun auðu, þegar að því kemur að taka afstöðu til málsins sjálfs, það er hvort hagsmunir Íslands krefjist aðildar að Evrópusambandinu eða ekki. Hann treystir sér ekki til að taka þar málefnalega afstöðu. Hann fylgir jájá-neinei stefnu eins og framsóknarmenn gera gjarnan gagnvart stórum álitaefnum. Þetta sama gerðu framsóknarmennirnir í Evrópunefndinni, sem ég stýrði og skilaði skýrslu í mars 2007; þeir settust á girðinguna.

Í lok þessa kafla ræðu sinnar gefur Guðni til kynna, að hann þurfi kannski ekki að gera annað en fylgja flokknum í stað þess að leiða hann, þegar hann segir: „Við framsóknarmenn getum vissulega gert eitt. Í flokki okkar eru 12 þúsund flokksmenn. Það gæti verið fróðlegt að spyrja alla flokksbundna menn í póstspurningu út í viðhorf þeirra til Evrópumálanna.“

 

*

 

Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Frétta-blaðsins og fyrrverandi formaður Sjálf-stæðisflokksins, hefur skrifað nokkra leiðara um tengsl Íslands og Evrópusambandsins síðustu vikur og mánuði. Hinn 16. maí ræddi hann um aðferðafræðina eða vegvísinn undir fyrirsögninni: Loddaralist.

 

Þorsteinn telur, að ofar öllu öðru þurfi að vera ljóst, að aðildarmálið verði aldrei til lykta leitt fremur en önnur stærstu mál þjóðarinnar, án þess að alþingi og ríkisstjórn hafi þar um forystu. Allar tilraunir til þess að koma málinu úr höndum alþingis byggist annaðhvort á misskilningi um stjórnskipu-legt hlutverk þess eða vilja til að drepa málinu á dreif.

Lýsir Þorsteinn þeirri skoðun, að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, hafi geng-ið lengst allra í að afvegaleiða umræðuna með yfirlýsingum um að taka verði málið úr höndum stjórnmálaflokkanna. Það þýði á mæltu máli að því eigi að ýta út fyrir veggi alþingis.

Í lok þessa leiðara segir Þorsteinn:

„Rétt er og eðlilegt að leggja í dóm kjósenda hvort sækja á um aðild eða ekki. Það hlýtur hins vegar að gerast með þeim hætti að ríkisstjórn leggi til við Alþingi að slíkar viðræður verði hafnar með þeim fyrirvara að hugsanlegt samþykki löggjafarsamkomunnar verði síðan háð því að þjóðin fallist á niðurstöðuna í almennri atkvæðagreiðslu. Loks ber svo að leggja samningsniðurstöðuna fyrir þjóðina eftir samþykki Alþingis.

Þjóðarvilji án þingvilja er loddaralist. Á hinu verður þjóðin að hafa skilning að tíma getur tekið að móta þingviljann í svo örlagaríku máli.Verði ráð Alþingis að henda umsóknarspurningunni í þjóðina án þess að taka sjálft afstöðu væri rétt að kjósendur fengju samtímis að velja nýja þingmenn sem þeir vita þá hvar standa.“

Þorsteinn vill með öðrum orðum, að fyrst sé myndaður meirihluti á alþingi um aðild að ESB og síðan ráðist í stjórnskipulega heimavinnu. Össur Skarphéðinsson, iðnaðar-ráðherra, vill að leiðin sé styttri á heimaslóð. Hann ritar á vefsíðu sína 27. apríl:

„Ég er líklega elsti evrópusinninn á Alþingi. Ég held að þar sitji enginn í dag, sem hefur jafnlengi verið hlynntur fullri aðild að Evrópusambandinu og ég.

Þessvegna var ég alveg sammála Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í dag, þegar hún sagði að það eigi að breyta stjórnarskránni til að greiða fyrir hugsanlegum aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.

Ég var líka alveg sammála Birni Bjarnasyni þegar hann lagði til fyrir skömmu að gerður yrði vegvísir að aðildarumsókn. „Vegvísir segir okkur, hvað þarf að gera til að komast á leiðarenda.“ Björn, með djúphygli sinni, nefndi einmitt breytingar á stjórnarskránni — einsog Þorgerður Katrín í dag.

Björn gekk þó lengra. Hann sagði líka, að í vegvísinum gæti falist ákvörðun um til að mynda hvort fara ætti leið tvöfaldrar þjóða-ratkvæðagreiðslu — þannig að þjóðin gengi fyrst til atkvæða um það, hvort sækja ætti um, og síðan, að loknum aðildarviðræðum, um niðurstöðuna sjálfa. Ég tek skýrt fram að ég túlka ekki viðhorf Björns þannig að hann sé að skipta um skoðun á ESB, heldur einungis þannig, að hann sé að leggja til ákveðna leið, sem hann telur færa, til að komast að niðurstöðu. Ég er leiðinni sammála.

Lengi vel taldi ég sjálfur að óþarft væri að leggja nema í eina atkvæðagreiðslu — um sjálfa niðurstöðuna. En, gott og vel, einsog málum er komið þá get ég vel fallist á, að því aðeins verði sótt um aðild, að meirihluti taki í þjóðaratkvæðagreiðslu afstöðu með umsókn — áður en hún er lögð fram.

Það þarf í sjálfu sér engar vangaveltur og litla vinnu til viðbótar um kosti og galla umsóknar. Öll gögn málsins liggja meira og minna fyrir, meðal annars af hendi þeirrar ágætu Evrópunefndar sem við Björn sátum báðir í.

Þess vegna tel ég að það væri heppileg að-ferð að menn tækju upp hugmynd dómsmála-ráðherra um vegvísi, lykju honum á 6–9 mán-uðum, og vilji Íslendinga til umsóknar yrði síðan leiddur fram með hugmynd hans um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig væri það þjóðin sjálf, en hvorki alþingi né ríkisstjórn, sem tæki af skarið um hvort menn sæktu um — eða ekki.

Er ekki gott fyrir alla að þetta mál yrði frá við næstu þingkosningar?“

Össur telur ekki endilega nauðsynlegt, að meirihluti alþingis komist að niðurstöðu um stefnu á aðild, áður en efnt sé til fyrri þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Málinu verði einfaldlega vísað til þjóðarinnar og þess beðið, hvað hún segir. Samkvæmt kenningu Þorsteins Pálssonar hallast Össur að loddaralist í málinu. Björgvin G. Sigurðsson vildi ekki sitja undir þeim stimpli ritstjórans og segir í Fréttablaðinu 17. maí:

„Í leiðaranum er að finna kostulegar umvand-anir ritstjórans í minn garð þar sem hann eignaði mér þá skoðun að hafa farið mikinn fyrir því að koma málinu út fyrir veggi Alþingis og frá flokkunum til meðferðar og umfjöllunar. Einkar sérkennilegt, í besta falli, í ljósi þess að líklega hefur ekki annar alþingismaður fjallað meira um málið síðustu misseri og margoft sagt að ekkert gerist í málinu fyrr en stóru flokkarnir tveir taki um það ákvörðun að sækja um og stíga skref í málinu. Leiðin til ESB liggur í gegnum Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu. En þar eiga málin heldur ekki að vera í gíslingu.“

 

*

 

Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman til sérstaks fundar um Evrópumálin miðvikudaginn 7. maí og ræddi þau frá öllum hliðum. Mikill samhljómur var í máli manna bæði um efnis- og formhlið málsins.

 

Geir H. Haarde, flokksformaður, sagði á fundi á Akureyri 13. maí  að flokkurinn ætlaði á haustdögum að taka Evrópumálin til opinnar og víðtækrar umræðu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, vara-formaður Sjálfstæðisflokksins, talaði á fundi í Kópavogi 14. maí og ræddi meðal annars um Evrópumál á þennan veg samkvæmt frétt hljóðvarps ríkisins í hádegi 15. maí:

„Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa forystu í umræðu um Evrópusambandsaðild og upplýsa fólk um kosti og galla aðildar. Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, á opnum fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í gærkvöld. Þingflokkurinn hefði ákveðið að í haust yrði blásið til fundaherferðar um málið.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir:Og Sjálfs-tæðisflokkurinn á að vera í forystu í umræðu um Evrópumál og við ætlum okkur og formaður sagði, greindi frá því í gær á fundi fyrir norðan sem að kom meðal annars fram og við í rauninni ákváðum þingflokkurinn á mjög góðum fundi um Evrópumál í þarsíðustu viku, að við ætlum að fara næsta haust í fundaherferð þar sem að Evrópumálin verða rædd af okkar hálfu. En ég segi að í ljósi þess að við sjálfstæðismenn og Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að stuðla að upplýstri umræðu, umræðu sem að leiðir til þess að fólk getur gert upp við sig hvort það vill ganga í Evrópusambandið eða ekki, metið kosti þess og galla, að þá segi ég líka; ég treysti fólkinu til þess að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki á þessu kjörtímabili þannig að það sé undirstrikað, á næsta kjörtímabili til þess að velja um það hvort það verði inni eða úti í Evrópusambandinu.“

Um þessi orð Þorgerðar Katrínar sagði Þorsteinn Pálsson í leiðaranum 16. maí:

„Þó að í þessum yfirlýsingum felist engin efnisleg afstöðubreyting bera þær eigi að síður vott um nýtt og jákvætt viðhorf til umræðunnar.“

Í Fréttablaðinu 17. maí er rætt við Þorgerði Katrínu um Evrópumálin. Hún segir samhljóm í þingflokki sjálfstæðismanna en menn hafi hins vegar ólíkar skoðanir á því hvernig eigi að nálgast viðfangsefnið. „Ég fagna því að við erum að dýpka umræðuna og það er gott fyrir alla. Ég hef engar áhyggjur af því þó það sé einhver ágreiningur um Evrópumálin, hvort sem það er innan Sjálfstæðisflokksins eða í samfélaginu. Mikilvægast er að það fari fram fordómalaus umræða og ég er orðin þreytt á því ofstæki sem er á báða bóga, hvort sem menn eru Evrópusinnar eða andstæðingar aðildar,“ segir Þorgerður Katrín.

Þá segir orðrétt í Fréttablaðinu:

„Þorgerður Katrín lýsti þeirri skoðun sinni á fundi í Kópavogi í vikunni að þjóðaratkvæðagreiðsla kæmi til greina á næsta kjörtímabili um hugsanlegar viðræður um ESB-aðild. Eins að gerðar verði nauðsynlegar stjórnarskrárbreytingar í því sambandi. Undir þessa skoðun hafa aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokks, þar á meðal Geir H. Haarde forsætisráðherra, ekki tekið.

„Ég tel að mikilvægt sé að breyta stjórnarskránni svo við höfum þann mögu-leika að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er alveg rétt að það eru ekki allir þeirrar skoðunar en ég segi það óhikað engu að síður. Í því er ekki fólgið að menn fari sjálfkrafa í aðildarviðræður en menn verða tilbúnir og það er ekki búið að loka leiðum ef menn komast að málefnalegri niðurstöðu eftir kosningar,“ segir Þorgerður.

Þorgerður og Björn Bjarnason hafa bæði sagt að umræðan um Evrópumál sé hálfgerður blekkingarleikur. Spurð um málflutning Samfylkingarinnar segir Þorgerður að þeim orðum sé ekki beint að samstarfsflokknum í ríkisstjórn. „Við verðum að gera okkur grein fyrir að Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur þetta á stefnuskránni en það er líka ljóst að þessi ríkisstjórn hefði aldrei verið mynduð ef aðild að ESB hefði verið uppi á borðinu.”

Björn Bjarnason hefur lýst þeirri skoðun sinni að Evrópumálið sé þess eðlis að deilur gætu klofið Sjálfstæðisflokkinn. Því samsinnir Þorgerður ekki. „Við erum það sterk að við getum tekist á við umræðuna. Mín afstaða er skýr. Ég er mótfallin því að ganga í Evrópusambandið en ég vil sjá umræðuna þróast með öðrum hætti en hingað til.““

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, ræddi Evrópumálin á alþingi 15. maí og sagði:

„Hvort það verður atkvæðagreiðsla hér á landi um aðild að Evrópusambandinu er líka algerlega óljóst en ég held að það sé alveg ljóst að það verður engin slík atkvæðagreiðsla á þessu kjörtímabili. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í forustu fyrir slíkri atkvæðagreiðslu þyrfti hann að hafa mótað sér nýja stefnu og aðra stefnu en hann hefur í dag og það þyrfti að liggja ljóst fyrir að flokkurinn ætlaði að leggja til að þjóðin gengi í Evrópusambandið. Þá stefnu hefur flokkurinn ekki markað sér og ég sé ekki fyrir mér að það gerist alveg á næstunni.“

Í Morgunblaðinu 16. maí er sagt frá ræðu, sem ég flutti á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll hinn 15. maí. Þar er meðal annars haft eftir mér:

„Það er engin þörf á því að breyta stjórnar-skránni nema áður hafi verið tekin ákvörðun um það af stjórnvöldum að sótt skuli um aðild að Evrópusambandinu. Þegar við gerðum EES-samninginn og urðum aðilar að Scheng-en-samstarfinu var það ákvörðun stjórnvalda sem byggðist á mati á hagsmunum þjóðarinnar að það væri skynsamlegt að gera þessa samn-inga. Þá var leitað til stjórnlagafræðinga og þeir spurðir: samrýmist það stjórnarskránni að við göngum inn í þetta samstarf? Í báðum tilvikum var niðurstaðan sú að það þyrfti ekki að breyta stjórnarskránni og það hefur ekki verið gert. En í þeim umræðum var jafnframt alltaf sagt að ef við ætluðum að stíga stærra skref, fara inn í Evrópusambandið, að þá yrðum við að breyta stjórnarskránni.

En áður en það er gert verða menn auðvitað að komast að niðurstöðu um það á Alþingi að það sé vilji fyrir því hjá stjórnmálaflokkunum að gengið sé í sambandið, að þeir hafi tekið ákvörðun um að stíga þetta skref og láta síðan í krafti þeirrar ákvörðunar ganga fram breytingar á stjórnarskrá. Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla nema menn hafi tekið ákvörðun sem krefst þess að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í áliti, sem við Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gáfum með þeim Ragnari Arnalds og Katrínu Jakobsdóttur, fulltrúum vinstri/grænna í Evrópunefndinni, kemur fram, að við erum öll fjögur andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu að óbreyttu.

Í Morgunblaðinu 17. maí er leitað Evrópu-álits tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar, formanns utanríkis-málanefndar alþingis, og Illuga Gunnarssonar, annars tveggja formanna nýrrar Evrópunefnd-ar, sem Geir H. Haarde hefur skipað. 

Bjarni telur ótímabært að bera aðildar-spurninguna undir þjóðaratkvæðagreiðslu, nema vilji alþingis til þess að sækja um liggi fyrir. Bjarni segir:

„Ef ekki liggur fyrir meirihluti á Alþingi þar sem þingmenn eru bundnir eigin sannfæringu, þá er ótímabært að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Enda yrði það ekkert annað en skoðanakönnun, því ljóst er að það mun þurfa atbeina Alþingis til að hreyfa málinu, til að mynda varðandi breytingu á stjórnarskrá og staðfestingu á samningnum. Að því leyti er ég mjög fráhverfur þessari hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar Framsóknarflokkurinn tefldi fram hugmynd-inni á miðstjórnarfundi um daginn var það aðeins vandræðaleg tilraun til að sætta sjónarmið innan flokksins, án þess að stefna hans sem stjórnmálaafls væri skýr.“

Þá segir Bjarni ekki skrýtið að Samfylkingin taki undir með framsókn í þessum efnum:

„Það er eini flokkurinn sem hefur þá opinberu stefnu að ganga í ESB en honum hefur ekki tekist að koma því á dagskrá fyrir kosningar. Samfylkingin hefur því engu að tapa með því að taka undir slíkar hugmyndir. Sjálfstæðisflokkurinn er hins vegar með þá stefnu að byggja tengsl sín við Evrópusambandið á EES-samningnum. Flokkurinn á að vera leiðandi afl í umræð-unni og ég sé fyrir mér að hún verði lífleg á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins.“

Bjarni vísar til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar:

„Ég tel að taka eigi til skoðunar þau skref sem við höfum nú þegar tekið [í samskiptum við Evrópusambandið, innsk. Bj. Bj.], því að sumu leyti er álitamál hvort þau kalla á stjórnarskrárbreytingar, og einnig að við eigum að horfa til framtíðar. Mér finnst eðlilegt að við undanskiljum ekki við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að líta til reglna um mögulegt framsal á hluta af fullveldisréttinum.“

Illugi Gunnarsson, tekur undir flest í máli Bjarna. Hann telur ótímabært að ræða um dagsetningar á þjóðaratkvæðagreiðslum, þegar umræða um aðild að ESB hafi ekki verið til lykta leidd á Alþingi. Þá tekur hann fram að stefna Sjálfstæðisflokksins sé skýr hvað Evrópu-málin varðar og því fari ekki vel á að hann hvetji til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.

„En ég er mjög sammála þeirri skoðun, að ef þingið kæmist að þeirri niðurstöðu að sækja ætti um aðild ætti að skoða möguleikann á þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Illugi.

 

*

 

Helsta undirrót umræðna um Evrópusambandsaðild um þessar mundir er spenna í viðskiptalífinu vegna afstöðu til krónunnar og getu hennar til að þjóna íslenska hagkerfinu.
 

Í Þjóðmálum hefur verið hvatt til umræðna um þetta mikilvæga mál. Hér á þessum stað sagði ég í hausthefti Þjóðmála 2007:

„Vaxandi togstreitu gætir milli hagsmuna fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl erlendis, og þeirra, sem standa vörð um krónuna . . .

Fyrir stjórnvöld er spurningin þessi: Ætla þau að láta viðskiptalífið og fyrirtæki, sem starfa að mestu erlendis leiða umræðurnar um gjaldmiðilinn eða hafa þar sjálf forystu?“

Þessi togstreita er ekki úr sögunni og hún hefur síðustu mánuði að nokkru breyst í kröfu um aðild að Evrópusambandinu, þegar sagt er, að ekki sé unnt að losna undan krónunni nema með evru og hún komi ekki til sögunnar nema með aðild.

Ég er sammála því mati Geirs H. Haarde, sem birtist í upphafi þessarar greinar, að íslenska hagkerfið sé betur sett utan Evrópu-sambandsins en innan. Á hinn bóginn hefur reynst nauðsynlegt við núverandi aðstæður að gera sérstakt varnarbandalag við norræna seðlabanka til varnar krónunni. Þeirri spurningu þarf að svara, hvort unnt sé að tryggja slíkar varnir á grundvelli EES-samningsins.

Tengsl Íslands og Evrópusambandsins byggjast á gagnkvæmri viðleitni til að leysa úr hagsmunamálum beggja á jafn-réttisgrundvelli. Hvers vegna kynni það ekki að ná til gjaldmiðilsmála?

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um Evrópumál á fundi sjálfstæðismanna í Valhöll 15. maí og vék undir lok máls síns sérstaklega að gjaldmiðilsmálunum með þessum orðum:

„Einn kostur er breytt fyrirkomulag pen-ingamálastefnunnar í ljósi þeirra ágalla sem fram hafa komið á verðbólgumarkmið-unum. Forsætisráðherra boðaði á ársfundi Seðlabankans að gerð yrði úttekt á pen-ingamálastefnunni af okkar færustu sér-fræðingum, innlendum sem erlendum, með það fyrir augum að tryggja það að við værum að nota þau bestu tæki sem völ er á.

Tillögur prófessoranna Stefáns Más Stef-ánssonar og Guðmundar Magnússonar um að kannaður verði sá möguleiki sem þeir telja raunhæfan að óska eftir samningum við ESB um aukaaðild að Evrópska myntkerfinu (ERM II) sem sett var á fót 1996 og var ætlað að ná til þeirra aðildarríkja ESB sem ekki eru aðilar að myntbandalagi þess. Danmörk og Grikkland hafa t.d. verið aðilar að því frá upphafi. Þessi leið þeirra hefur ekki verið skoðuð af neinni alvöru, en er góðra gjalda verð og okkur ber að fullkanna áður en sótt er um aðild að ESB með það eitt að markmiði að taka upp evru.

Upptaka annars gjaldmiðils en evru, ég nefni dollar? Af hverju ættum við að einskorða athugun okkar við þann gjaldmiðil sem felur samhliða í sér afsal fullveldis og yfirráð yfir sjávarauðlindum okkar. Ég er ekki sannfærð um að þessi valkostur hafi verið fullreyndur þó svo að ýmsir góðir menn, forsætisráðherrann okkar t.d., séu þessarar skoðunar. Flest íslensk fyrirtæki sem gera upp í erlendri mynt gera upp í dollurum, olía og ál taka verð í dollurum. (Síðan má halda því fram að við eigum inni greiða hjá vinum okkar í USA þannig að við gætum fengið þá til að aðstoða okkur við þetta.)

Upptaka evru og aðild að ESB er svo einn kosturinn enn. Ef í ljós kæmi eftir þessa athugun fremstu sérfræðinga okkar að þetta sé eina færa leiðin til framtíðar, þá skoðum við það að sjálfsögðu. Fyrr er það ekki tímabært.“

 

*

 

Hér hefur verið stiklað á stóru í umræðum síðustu vikna um Evrópumál. Stiklurnar eru dágóður vegvísir og þær sýna:

 

Aðild að Evrópusambandinu:

Sjálfstæðisflokkur á móti.

Framsóknarflokkur skilar auðu.

Samfylking með.

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla:

Allir með.

Framsóknarflokkur — tvær atkvæða greiðslur.

Samfylking tvær til ein — tvær, ef unnt er að skjóta máli þannig út af þingi.

Sjálfstæðisflokkur að minnsta kosti ein, enda móti ríkisstjórn og þing skýra tillögu.

 

Stjórnarskrárbreyting:

Allir segja hana nauðsynlega.

Þorgerður Katrín telur nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til að unnt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Guðni bendir á, að unnt sé að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu með lögum án stjórnarskrárbreytinga.

Breyta verður stjórnarskránni vegna framsals á fullveldi.

 

Undirrót núverandi spennu

í umræðunum:

Staða krónunnar og spurningin

    um annan gjaldmiðil.