12.7.2008 21:29

Laugardagur 12. 07. 08.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni France 3 og bauð hljóðmanni gott kvöld, án þess að undir væri tekið. Lét forsetinn orð falla um dónalega framkomu við sig. Hljóðmaðurinn sýndi forsetanum óvirðingu, af því að forsetinn vill banna auglýsingar í ríkissjónvarpsstöðvum. 300 starfsmenn stöðvarinnar efndu til mótmælastöðu, þegar forsetinn kom til hennar.

Jesse Jackson, blökkumannaleiðtogi meðal demókrata, heyrðist hvisla í lok þáttar á Fox sjónvarpsstöðinni, að réttast væri að „skera undan“ Barack Obama, forsetaframbjóðanda demókrata fyrir að tala niður til blökkumanna!

Fréttamaður hljóðvarps ríkisins var fyrir fram dóms- og kirkjumálaráðuneytið og sagði fréttir af mótmælum vegna Pauls Ramses, Kenýamanns. Fréttamaðurinn kvaddi viðmælenda sinn meðal mótmælenda með orðunum: Gangi ykkur vel!

Fréttakona sjónvarps ríkisins var að ræða við Steingrím J. Sigfússon, formann vinstri grænna, um mál Pauls Ramses í Kastljósi. Hún lauk samtalinu eftir gagnrýni Steingríms J. á afgreiðslu málsins með því að segja: Flott.