18.7.2008 21:57

Föstudagur, 18. 07. 08.

Við Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, hittumst að hans ósk í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu í dag og ræddum um löggæslu á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna einlægum áhuga borgarstjóra á löggæslumálum. Síðan ég tók við dómsmálaráðherraembætti hefur enginn borgarstjóri óskað eftir fundi með mér um þessi mál og þetta er annar fundur okkar Ólafs.

Samfylkingarfólk, nú síðast Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, nálgast öryggismál og löggæslu eins og eiithvert þrætuepli milli ríkis og sveitarfélaga. Væntir hann þess í raun að ná einhverjum árangri með þeirri aðferð? Eða er hann aðeins að reyna að slá keilur á kostnað annarra stjórnmálamanna?

Frá mínum sjónarhóli er einkennilegt að fylgjast með þessum æfingum Dags B. í ljósi þess, að á alþingi hefur þingflokksformaður Samfylkingarinnar. samstarfsflokks í ríkisstjórn, gert sér far um að gera allar umbætur mínar í lögreglumálum tortryggilegar með einkennilegri og órökstuddri gagnrýni á embætti ríkislögreglustjóra. Dagur B. hefur tekið undir þau órökstuddu sjónarmið, að almenn löggæsla hafi goldið fyrir eflingu sérsveitar og tilkomu greiningardeildar, honum þykir sér sæma að vega að embætti ríkislögreglustjóra. Til hvers? Ekki eykur það löggæslu í miðborg Reykjavíkur.

Við borgarstjóri staðfestum að sjálfsögðu, að öryggi borgaranna er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga og hvor um sig hefur eigin hlutverki að gegna. Við viljum efla samstarf ríkis og Reykjavíkurborgar á þessu sviði.

Löggæsla er ekki sama og öryggisgæsla einkaaðila. Á hinn bóginn má spyrja: Hvers vegna skyldu sveitarfélög ekki huga að samningum við einkaaðila á þessu sviði, eins og þeir, sem í sveitarfélögunum búa? Að láta sem svo, að með viðskiptum við öryggisfyrirtæki séu tugir þúsunda Íslendinga að kaupa sér falskt öryggi, er auðvitað rugl. Hvers vegna skyldu þessi fyrirtæki veita sveitarfélögum falska þjónustu?

Fréttir hafa birst, meðal annars á forsíðu Morgunblaðsins, um, að aðeins 14 lögreglumenn hafi verið á vakt að kvöldi 12. júlí og aðfaranótt hins 13. Ég skýrði borgarstjóra frá því, að þetta væri ekki rétt - þegar mest var þessa nótt, hefðu 44 lögreglumenn verið á vakt. Leiðrétti ég hinar röngu fréttir á fundinum með borgarstjóra.