22.7.2008 14:59

Þriðjudagur, 22. 07. 08.

Í gær velti ég fyrir mér hér í dagbókinni, hvað málsvarar evruaðildar Íslands segðu um þau ummæli seðlabankastjóra Evrópu, að hann gerði ekkert með hag einstakra landa, hann yrði að líta á stóru myndina.

G. Valdimar Valdimarsson bregst við á eftirfarandi hátt á bloggsíðu sinni:

„Á móti má spyrja Björn hvað hefur breyst síðan hann lagði til að semja um evruaðild án þess að ganga í Evrópusambandið?   Það er ótrúlegur hringlandaháttur í öllum málflutningi Sjálfstæðismanna þegar Evrópumál eru annarsvegar.   Meinti Björn eitthvað með útspilinu um daginn, eða var verið að drepa málinu á dreif eins og þeir gera sem eru rökþrota?  Það má líka spyrja Björn að því í framhaldi af þessar spurningu hér að ofan, hvaða álit hann hefur á útspili forsætisráðherra um að taka frekar upp dollar en evru?  Hann gerir lítið úr formanni sínum í þessum pistli og hittir sjálfan sig og Geir fyrir.   Skýtur sig og sinn helsta samherja í fótinn.  

Þetta er íhaldið í dag.“
 
G. Valdimar er einn þeirra, sem talar hæst um nauðsyn Evrópuumræðu. Spyrja má: Hver nennir eða leggur sig fram um að taka þátt í umræðu á þeim grunni, sem hann leggur? Ég hef sýnt, að lög heimila samninga Evrópusambandsins við þriðju ríki um evru. Þessi niðurstaða liggur fyrir staðfest af sendiherra sambandsins gagnvart Íslandi, Percy Westerlund. Hið sama á að sjálfsögðu við um dollar og evru, þeir, sem ákveða gengi þessara gjaldmiðla, láta ekki hagsmuni einstakra landsvæða ráða ferðinni heldur stóru myndina. Hvar hef ég lagt til að Ísland taki upp evru? Hið eina, sem ég hef sagt um það efni, er, að unnt sé að taka upp evru, án þess að ganga í Evrópusambandið.