14.7.2008 9:30

Mánudagur, 14. 07. 08.

Í pistli hér á síðunni 17. júní 2008 segir:

„18. Í nýjasta hefti Þjóðmála rita ég grein um um Evrópuumræðurnar hér á landi um þessar mundir. Þar vek ég máls á því, að staða íslensku krónunnar hafi kveikt nýjan áhuga á auknu Evrópusamstarfi Íslendinga og jafnvel aðild að Evrópusambandinu. Lausleg athugun leiðir í ljós, að lögfræðilega er ekkert, sem banni stjórnendum Evrópusambandsins, að semja við ríki utan sambandsins um evru-málefni. Það hefur verið gert við Vatíkanið, San Marino, Monakó og Andorra, svo að dæmi séu nefnd. Sé lögmætið fyrir hendi innan Evrópusambandsins, byggist niðurstaða viðfangsefna á pólitískum vilja.“

Þegar ég segi hið sama með öðrum orðum á sama stað 12. júlí, ætlar allt vitlaust að verða. Hvað veldur?

Í hausthefti Þjóðmála 2007 ritaði ég grein undir fyrirsögninni: Evran ekki lengur ESB-gulrót. Þar segir meðal annars:

„Vaxandi togstreitu gætir milli hagsmuna fyrirtækja, sem hafa haslað sér völl erlendis, og þeirra, sem standa vörð um krónuna . . .

Fyrir stjórnvöld er spurningin þessi: Ætla þau að láta viðskiptalífið og fyrirtæki, sem starfa að mestu erlendis leiða umræðurnar um gjaldmiðilinn eða hafa þar sjálf forystu?“

Í samtali við Egil Helgason í Silfri Egils hinn 3. febrúar 2008 sagði ég:

„Það hafa komið menn hér sem segja að það sé hægt [að taka hana upp utan ESB]. Hér var einhver sérfræðingur á vegum seðlabanka Evrópu fyrir einu eða tveimur árum og flutti erindi og sagði, það er brot á EES-samningnum ef þið takið einhliða upp evruna. Og þá spyr maður sig ef það er brot á EES-samningnum að taka upp einhliða evru er þá unnt með einhverju samkomulagi á grundvelli EES-samningsins að ná einhverri niðurstöðu um tengingu við evruna ef samningurinn gerir ráð fyrir því að við þurfum að taka eitthvað tillit til evrópskra stofnana í því efni. Þetta verða menn að skoða og menn verða að komast einhvern veginn í gegnum umræðurnar.“

Þessar stuttu tilvitnanir og allt annað, sem ég hef um þessi mál ritað undanfarna mánuði, ættu að sýna þeim, sem áhuga hafa, að ég hef velt þessu máli mikið fyrir mér, frá því að Evrópunefndin undir formennsku minni skilaði skýrslu sinni í mars 2007.

Evrukafli skýrslunnar tók að sjálfsöðgu mið af stöðu mála á þeim tíma, sem hann var saminn. Síðan hafa mörg orð fallið um þau mál. Þau hafa gefið mér og öðrum tilefni til að velta málunum fyrir sér. Meginniðurstaða mín er, að frá lögfræðilegum sjónarhóli séð, getur Evrópusambandið samið við þriðju ríki um evruaðild.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, ætlaði að slá sér upp á því í gær, að ég væri að aðhyllast sjónarmið hennar í evrumálum. Þegar hún sá, að hún hafði hlaupið á sig í því efni, velur hún þann kost að segja hugmynd mína vanhugsaða!

Jónas Kristjánsson hefur skrifað óteljandi netfærslur um að ég sé steinrunninn, af því að ég skipti aldrei um skoðun. Nú býsnast hann yfir því, að ég hafi skipt of fljótt um skoðun...