29.7.2008 18:07

Þriðjudagur, 29. 07. 08.

Fórum í Kálfafellsstaðarkirkju í Suðursveit og tókum þar þátt Ólafsmessu. Kirkja á Kálfafellsstað var árið 1050 kennd við Ólaf helga Haraldsson, Noregskonung. Þetta breyttist við siðaskipti en árið 1717 keypti prestur á staðnum, séra Jakob tveggja álna trétsyttu af Ólafi helga og setti upp í kirkjunni og var styttan þar til 1888, þegar hún var gefin Forngripasafninu og er hún nú í Þjóðminjasafni en mynd af styttunni blasir við gestum í kirkjunni.

Klukkan 14.00 hófst helgistund í kirkjunni, þar sem séra Einar G. Jónsson sóknarprestur prédikaði og minntist Ólafs helga. Að lokinni helgistundinni las Þorbjörg Arnórsdóttir, sem fer með forstöðu Þorbergssafns á Hala, úr bók Kristjáns Eldjárns Hundrað ár í Þjóðminjasafni um kirkju Ólafi helga og sagnir tengdar henni um, að ógæfa kunni að hvíla á prestum á Kálfafellsstað, séu þeir þar lengur en 20 ár, án þess að sýna Ólafi helga virðingu og Völvuleiðinu undir Hellaklettum skammt fyrir neðan Kálfafellsstað.

Eftir stutt hlé var efnt til tónleika í kirkjunni, þar sem Rut, kona mín, og Richard Simm léku lög á fiðlu og píanó. Hljómburður er einstaklega góður í kirkjunni, sem var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni.

Kirkjan var nær fullsetin og að lokinni athöfn þar var haldið að Völvuleiðinu, þar sem Fjölnir Steinþórsson frá Hala, flutti okkur fróðleik um leiðið og tengdi frásögn sína tveimur fjölum úr stórviði, sem rak á fjöru Kálfafellsstaðar og dugði til að reisa þar prestssetur. Taldi hann rekann og nýtingu hans tengjast völvunni og virðingu fyrir leiði hennar en umhirða þess er í höndum prestsins. Sagan hermir, að þarna hvíli Gunnhildur, systir Ólafs helga. Veðurblíðan var einstök og stundin við leiðið eftirminnileg.

Síðan var okkur öllum boðið í Þórbergssetur, þar sem kaffiveitingar voru í boði. Séra Haraldur M. Kristjánsson í Vík, prófastur Skaftfellinga flutti ávarp og Fjölnir Steinþórsdóttir sagði frá draumi, sem tengdist Gunnhildi, konungssystur.

Á sínum tíma er talið, að 35 kirkjur hafi verið helgaðar Ólafi helga hér á landi en nú séu þær um 13, sem eftir standa. Á hinn bóginn er nýnæmi eftir siðaskipti á sextándu öld, að efnt skuli til Ólafsmessu í lúterskri kirkju . Færeyingar halda merki Ólafs helga hátt á loft með Ólafsvökunni.

Framtak sr. Einars og safnaðar hans var íbúum í Suðursveit til mikils sóma. Færi vel á því, að eftirgerð líkneskisins af Ólafi helga, sem nú er í Þjóðminjasafni, fengi veglegan sess í Kálfafellsstaðarkirkju. Sr. Einar hefur nú setið 19 ár á staðnum. Hann fæddist á staðnum, þegar afi hans var þar prestur.