Miðvikudagur, 02. 07. 08.
Sigmar var nokkuð aðgangsharður við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í Kastljósi kvöldsins og sakaði hana og Samfylkinguna um tvískinnung í umhverfismálum. Þórunn varðist hins vegar fimlega og Sigmar kom hvergi að tómum kofa hjá henni, þótt augljóst væri, að hún teldi Björgvin G. Sigurðsson, samflokksmann sinn og samráðherra, betur hafa sleppt því að taka skóflustungu að nýju álveri í Helguvík.
Þórunn sagði réttilega, að hún ynni að sínum málum í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og margt væri á döfinni í sínu ráðuneyti til að framfylgja því, sem þar kæmi fram.
Í kvöldfréttum hljóðvarps ríkisins var vitnað í Björgvin G. Sigurðsson um nauðsyn þess, að sjálfstæðismenn tækju innan flokks síns afstöðu til Evrópusambandsins, sem væri Björgvini að skapi.
Björgvin starfar ekki síður en Þórunn Sveinbjarnardóttir í ríkisstjórn, sem hefur meðal annars mótað sér skýra stefnu í Evrópumálum. Um þá stefnu sömdu forystumenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar við myndun þessarar ríkisstjórnar og hún gildir fyrir flokkana, á meðan þeir eiga samstarf.
Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn gefa ekki yfirlýsingar um nauðsyn þess, að Samfylking breyti um stefnu í umhverfismálum eða Evrópumálum. Þeir virða þá stefnu, sem samstarfsflokkur þeirra hefur mótað og þann sáttmála, sem síðan hefur verið gerður um samstarf flokkanna.
Sjálfstæðismenn ræða Evrópumál í sinn hóp, hvað sem skoðunum Björgvins G. Sigurðssonar líður. Þingflokkur okkar sjálfstæðismanna hélt nýlega sérstakan fund um Evrópumálin og þar var samstaða þingmanna flokksins áréttuð.
Engum sjálfstæðismanni dettur í hug að krefjast þess, að Björgvin ræði um umhverfismál og stóriðju við Þórunni Sveinbjarnardóttur, þótt allir sjái, að þess kunni að vera þörf.