24.7.2008 21:47

Fimmtudagur, 24. 07. 08.

Setti inn á vefsíðu mína útskrift af samtali okkar Sigmars Guðmundssonar í Kastljósi í gær.

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var sagt, að milljón manns hefðu verið í Tiergarten í Berlín í dag til að hlusta á Barack Obama, verðandi forsetaframbjóðanda demókrata, flytja ræðu um samskipti Evrópu og Bandaríkjanna og önnur alþjóðamál á heimsreisu sinni. BBC sagði, að um 200 þúsund manns hefðu verið í garðinum og hlustað á Obama, þar sem hann stóð við Siegessäule, Sigursúluna, og sneri að Brandenborgarhliðinu í austri.

Þráttað var um, hvar í Berlín Obama ætti að standa, hvort væri við hæfi, að hann yrði við sjálft Brandenborgarhliðið, þar sem þeir John F. Kennedy og Ronald Reagan stóðu og fluttu eftirminnilegar ræður - báðir Bandaríkjaforsetar. Sigursúlan í Tiergarten varð fyrir valinu til að árétta, að Obama hefur hvorki verið formlega tilnefndur frambjóðandi né náð kjöri.

Athygli vekur, að Obama leggur höfuðáherslu á heimsókn til Berlínar, sniðgengur Brussel. höfuðborg Evrópusambandsins, og drepur rétt niður fæti í París og London.