27.7.2008 22:13

Sunnudagur, 27. 07. 08.

Við Gunnar Eyjólfsson fórum saman í dag í Reykholt í Borgarfirði til messu í tilefni af kirkjudegi, þar sem herra Sigurbjörn Einarsson biskup prédikaði. Stundin verður öllum ógleymanleg vegna hátíðleika messunnar og þess viðburðar að heyra herra Sigurbjörn flytja svo snjalla prédikun 97 ára að aldri.

Ég fagna því, að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn og formaður skipulagsráðs, skuli boða viðræður við stjórnendur Listaháskóla Íslands með það fyrir augum að tryggja, að skólinn rísi við Laugaveg á grundvelli verðlaunatillögunnar, sem kynnt hefur verið.

Sé óánægja með Gordon Brown jafnmegn meðal þingmanna Verkamannaflokksins og fréttir herma, leita þeir frekar að nýjum manni í hans stað en óska eftir kosningum. Þeir taka ekki þá áhættu að tapa þingsætum sínum vegna óvinsælda forsætisráðherrans. Brown hótar þeim kannski að rjúfa þing, haldi þeir sig ekki á mottunni.

Jack Straw, dómsmálaráðherra Breta, ber til baka, að hann sækist eftir leiðtogasæti Verkamannaflokksins. Verði hann valinn, þrátt fyrir þau orð, yrði hann aðeins til að brúa bil til yngri kynslóðar innan flokksins.