10.7.2008 19:15

Fimmtudagur, 10. 07. 08.

Fór síðdegis í gestastofu vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins, sem er að rísa við austurhöfnina í Reykjavík. Gestastofa er á 4. hæð húss við Lækjartorg og úr henni má sjá yfir hinar miklu framkvæmdir í austurhöfninni og innan dyra er að finna sýningu um gang þessara miklu framkvæmda. Mun sýningin breytast í takt við framvindu byggingarframkvæmda.

Í kynningarbæklingi vegna sýningarinnar segir: „Gestastofa sem þessi er nýlunda því ekki hefur áður verið boðið upp á samskonar á Íslandi en tíðkast hins vegar víðsvegar um heiminn þegar um meirihátta framkvæmdir er að ræða.“

Björgólfur Guðmundsson, stjórnarformaður eignarhaldsfélagsins Portus, sem reisir tónlistar- og ráðstefnuhúsið, opnaði sýninguna. Hún skiptist í tvennt, annars vegar eru vinnuferli framkvæmdanna gerð skil og hins vegar er sagt frá því, hvernig lokaverkið, það er tónlistar- og ræapstefnuhúsið, verður. Í gestastofunni er einnig unnt að efna til funda og tónleika með sætum fyrir 70 manns.

Gestastofan er í húsi við Lækjartorg, sem ætlunin er að hverfi til að opna fyrir tengingu á milli hins gamla miðbæjar og þess nýja, sem verður við höfnina.

Að mínu áliti á að stefna að því, að héraðsdómur Reykjavíkur fái nýtt aðsetur og hverfi frá Lækjartorgi. Reisa þarf nýtt hús fyrir héraðsdóm og embætti ríkissaksóknara og héraðssaksóknara, auk þess sem þar yrði litið til aðstöðu fyrir millidómstig, komi það til sögunnar.