Laugardagur, 26. 07. 08.
Sérfróðir um kvikmyndir um leðurblökumanninn telja nýjustu myndina um hann Rökkuriddarann - The Dark Knight þá bestu um þessa einstöku hetju réttlætisins og stríð hennar við illu öflin, sem holdgervast í Jókernum. Ég dreg þennan dóm ekki í efa. því að myndin er mögnuð í öllu tilliti.
Jónas Kristjánsson er áfram með títuprjón á lofti.
Hann skammar Jónínu Ben. fyrir að segja Voltaire (1694-1778) hafa verið uppi á 16. öld í stað hinnar 18. Er verri villa, að ruglast á öldum varðandi Voltaire í blaðagrein um ágæti detox í Póllandi á líðandi stundu, en segja fólki í ferðahandbók um París, að það sé á leið í hveitibúð, þegar um er að ræða hunangsbúð, Maison du Miel?
Hinn 11. júlí sl. voru 10 ár liðin, frá því að umferð hófst um Hvalfjarðargöngin. Af því tilefni rifjaði Morgunblaðið upp hrakspár um göngin þar á meðal þessa eftir Jónas Kristjánsson í leiðara DV 27. febrúar 1996:
„Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.“
Ég skrifaði í dag pistil um Listaháskóla Íslands við Laugaveginn. Verði skólinn reistur þarna blæs hann nýju lífi í miðborgina. Þegar ákveðið var, að Háskólinn í Reykjavík fengi aðsetur við Nauthólsvík í Vatnsmýrinni, taldi Dagur B. Eggertsson, að HR væri að tengjast miðborginni. Sú firra var notuð til að réttlæta byggingu á þessum viðkvæma stað og flaug ákvörðunin í gegnum borgarkerfið á örskotshraða - nú virðast menn ætla að taka sér góðan tíma til að ræða listaháskólann við Laugaveginn, af því að þar víkja tvö gömul hús fyrir skólanum samkvæmt verðlaunatillögu.