1.7.2008 20:42

Þriðjudagur, 01. 07. 08.

Á fundi ríkisstjórnarinnar lagði ég fram skýrslu um hættumat frá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Svaraði síðan spurningum um málið í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni og í Speglinum á RÚV.

Inntak skýrslunnar sýnir, að áfram verður að leggja áherslu á að efla og styrkja metnaðarfulla löggæslu, sem hefur tök á að bregðast við nýjum og erfiðari aðstæðum en áður.

Klukkan 16.00 var ég á háskólatorgi Háskóla Íslands á Melunum, þar sem því var fagnað, að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands hafa frá og með deginum í dag runnið saman í nýja stofnun undir merkjum Háskóla Íslands með 13.000 nemendum og um 2000 manna starfsliði á fimm fræðasviðum.

Fyrir utan ánægju af því að taka þátt í þessari sögulegu athöfn var skemmtilegt að hitta marga samstarfsmenn, frá því að ég gegndi embætti menntamálaráðherra.

Á dögunum hittumst við nokkrir áhugamenn um fjölmiðlun og netið til að ræða landsins gagn og nauðsynjar. Eitt af því, sem við vorum sammála um, var að vefsíðan eyjan.is væri komin í lægð. Nú hefur verið skýrt frá því, að Pétur Gunnarsson, stofnandi síðunnar og ritstjóri sé að láta af störfum við síðuna.

Guðmundur Magnússon hefur reynslu af því að halda úti vefsíðu. Hann hefur þetta að segja í tilefni af ritstjóraskiptum á eyjan.is.