4.7.2008 21:39

Föstudagur, 04. 07. 08.

80 til 100 manns komu saman fyrir utan dóms- og kirkjumálaráðuneytið í hádeginu í dag til að mótmæla þeirri ákvörðun útlendingastofnunar að vísa Paul Ramses frá Kenýa úr landi. Útlendingastofnun hefur sett atvikalýsingu málsins inn á vefsíðu sína og ættu allir áhugamenn um það að kynna sér það, sem þar segir.

Sérkennilegt er, hve langt Eiríkur Bergmann Einarsson, fræðimaður við Háskólann á Bifröst, gengur í viðleitni sinni við að tala niður Dublin- eða Dyflinarsamninginn, sem gerður er undir merkjum Schengen-samstarfsins.

Sú kenning Eiríks, að túlka beri ákvæði samningsins með vísan til undanþáguákvæðis í honum, stenst að sjálfsögðu ekki. Samingurinn er gerður í því skyni að auðvelda meðferð mála hælisleitenda með þeirri meginreglu, að um mál þeirra skuli fjallað í Schengen-landinu, þar sem þeir eru skráðir inn á Schengen-svæðið. Þetta er einföld og skýr regla og við framkvæmd samningsins hafa öll aðildarríki hans lagt höfuðáherslu á þetta atriði. Grikkir hafa kveinkað sér undan skyldu móttökuríkis undanfarið vegna þess, að um land þeirra fara nú rúmlega 100.000 hælisleitendur á ári.

Íslensk stjórnvöld hafa framkvæmt Dyflinarsamninginn á sama hátt og önnur aðildarríki hans. Ég sé ekki, að Eiríkur Bergmann færi nokkur málefnarök fyrir því, að íslensk stjórnvöld skuli upp á sitt einsdæmi breyta framkvæmd þessa samnings.

Haukur Guðmundsson, settur forstjóri útlendingastofnunar, sat fyrir svörum hjá Sigmari í Katljósi. Besti vitnisburður um, að Haukur hafi staðið sig vel, sést á því, að eindregnir andstæðingar niðurstöðu Hauks og samstarfsfólks hans meðal bloggara telja Sigmar ekki hafa verið nógu harðan í spurningum sínum! Þessu fólki er því miður ekki annt um, að rök fyrir niðurstöðunni séu skýrð, heldur vilja reka það með vísan til tilfinninga. Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum.