14.5.2011

Laugardagur 14. 05. 11.

Fyrir hrun bankanna nægði að menn segðu orðið „útrás“ til að þagga niður í þeim sem töldust ekki haga sér innan ramma hins pólitíska rétttrúnaðar. Nú hrópa menn „bankahrun“ til að hræða sjálfstæðismenn frá því að gagnrýna hina ótrúlega skemmandi stjórnarhætti sem einkenna ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms J. Hið einkennilega er að þetta sýnist duga til að halda aftur af forystusveit sjálfstæðismanna. Hún nær ekki vopnum sínum gagnvart þessari skaðvænlegu ríkisstjórn.

Það er ekki eitt heldur allt sem stjórnarherrarnir telja sig hafa umboð kjósenda sinna til að eyðileggja. Kosning til stjórnlagaþings misheppnaðist vegna þess hvernig að henni var staðið af hálfu stjórnvalda. Þá er valinn sá kostur að hafa hæstarétt að engu með því að gera þá sem hlutu ógilda kosningu að stjórnlagaráði með lögum frá alþingi. Upplýsingaskylda stjórnvalda er þrengd með nýju frumvarpi. Vegið er að stjórnarráðinu og vald tekið frá alþingi og flutt til forsætisráðherra undir þeim formerkjum að dregið sé úr ráðherraræði. Gjaldeyrishöft eru hert með sífellt meiri hnýsni í einkahagi manna. Lagst er gegn því að vatn sé virkjað. Erlendir fjárfestar hundeltir. Ráðist er að útgerð, fiskveiðum og fiskvinnslu með aðför að kvótakerfinu. Fjárfesting er minni en nokkru sinni frá stofnun lýðveldis. Skattar eru markvisst hækkaðir til að þrengja að á öllum sviðum.

Ef eitthvað af þessu er gagnrýnt hefja stjórnarherrarnir sönginn um bankahrunið. Vissulega var það vont en verri eru afleiðingar þess undir forystu vinstri stjórnar sem drepur allt í dróma.