13.5.2011 0:14

Föstudagur 13. 05. 11.

Hátíðin þegar Harpa var formlega opnuð í kvöld heppnaðist mjög vel. Flutt var tónlist af ýmsu tagi en mest klassísk. Í lokin sungu allir þátttakendur á sviði, um 400, og gestir í sal þjóðsönginn - ógleymanlegt. Ræður Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Jóns Gnarrs borgarstjóra voru góðar. Eina sem mér þótti ekki vel heppnað var kvikmynd um sögu byggingarinnar. Ef þetta var brot er of snemmt að fella dóm.

Við gerð kvikmyndarinnar ber höfundi að hafa í huga að ákvörðun um að opinberir aðilar stæðu að baki smíði tónlistarhúss var ekki tekin fyrr en í byrjun árs 1999. Fram til þess tíma var málið á herðum áhugamanna. Þeir leituðu eftri skuldbindingu ríkis og borgar. Hún lá ekki á lausu. Ríkisstjórnin tók hins vegar af skarið um stuðning við tónlistarhús í janúar 1999. Þá tók málið nýja stefnu og framkvæmd hennar sést í Hörpu í Reykjavík og Hofi á Akureyri.

Þegar London Symphony Orchestra gaf árið 1985 tónlistarhúsi í Reykjvík tónleika í London undir stjórn Vladimirs Ashkenazys var ekkert fast í hendi gagnvart íslenskum stjórnvöldum vegna hússins. Án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr gildi þessara tónleika skiptu þeir engu þegar kom að ákvörðunum árin 1995 til 1999 um hvort og hvernig ríkið ætti að koma að smíði tónlistarhúss.

Ég tók nokkrum sinnum þátt í umræðum um nýtt tónlistarhús á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Þar voru ýmsir, einkum í hópi yngri karla, andvígir smíði tónlistarhússins. Minnist ég harðra umræðna í menningarmálanefnd landsfundar flokksins. Í þingflokki sjálfstæðismanna og borgarstjórnarflokki (2002 til 2006) fundust einnig gagnrýndendur ef ekki beinir andstæðingar tónlistarhússins. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki lagt húsinu lið í ríkisstjórn og borgarstjórn hefði það ekki risið. Kvikmynd um Hörpu sem bregður ekki ljósi á þennan aðdraganda heldur hefst á undirskrift um samkomulag milli ríkis og borgar snemma árs 2002 segir ekki alla söguna. Í þessu máli gildir hið fornkveðna: Sá veldur miklu sem upphafinu veldur.

Þá er ekki unnt að gera heimildarmynd um smíði Hörpunnar og minnast ekki á hlut Björgólfs Guðmundssonar. Hann og samstarfsmenn hans lyftu tónlistarhúsinu á nýtt plan eftir að þeir völdust til að sinna framkvæmdum við húsið og ábyrgjast byggingartæknileg atriði ásamt listrænum. Björgúlfur réð Vladimir Ashkenazy sem listrænan ráðgjafa og og Ólaf Elíasson sem listrænan hönnuð á útliti hússins. Að gera „heimildarmynd“ um smíði Hörpu og láta þess ógetið hver kallaði Ashkenazy á vettvang eða Ólaf Elíasson segir alls ekki alla söguna.


Meginmálr