16.5.2011

Mánudagur 16. 05. 11.

Af því litla sem ég heyrði af umræðum á alþingi í dag um skýrslu utanríkisráðherra sannfærðist ég enn frekar en áður um að Árni Þór Sigurðsson, hinn vinstri-græni formaður utanríkismálanefndar alþingis, er í senn ljósmóðir ESB-umsóknarinnar og dagmóðir hins tæplega tveggja ára króa.

Árni Þór var spurður um hlut alþingis við mótun samningsafstöðu Íslands og lét hann sér nægja að segja að afstaðan yrði „kynnt“ utanríkismálanefnd og hann þóttist greinilega mjög róttækur þegar hann sagði að meira að segja fagnefndir þingsins kynnu að fá að sjá samningsafstöðu á sínu verkefnasviði. Árna Þór þótti ekkert sjálfsagðra en að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um samningsafstöðuna. Þingmönnum yrði hins vegar gefinn kostur á að kynna sér hana.

Árni Þór var fyrir nokkrum árum í fáeina mánuði fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel. Það dugði til að hann fékk ESB-vírusinn. Eftirmaður hans í þessari skrifstofu sambands evrópskra sveitarfélaga, Anna Margrét Guðjónsdóttir, ráðgjafi og varaþingmaður Samfylkingarinnar, var nýlega tilnefnd Evrópumaður ársins af Evrópusamtökum, það er þeim sem berjast fyrir aðild Íslands að ESB hvað sem tautar og raular. Tilnefninguna fékk hún fyrir ötula baráttu í þágu aðildarmálstaðarins.

Bjarni Benediktsson spurði Árna Þór á alþingi í dag hvernig hann mundi greiða atkvæði ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarsamning. Árni Þór gat ekki svarað því með já eða nei. Að vinstri-grænir feli Árna Þór trúnaðarstarf á þingi sem gerir honum kleift að leika þann leik sem hann hefur gert í ESB-málinu sýnir að flokknum er ekki treystandi í málinu. Þingmenn hans gera allt sem þeir mega til að sitja í valdastólum. Árni Þór á allt undir því að ganga í augun á Össuri og þar með gengur hann eins langt og hann frekast getur við að samþykkja að traðkað sé á alþingi í ESB-ferlinu.